Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Barnið á Ölkeldu
Barnið á Ölkeldu
Snemma á 18. öld bjó bóndi einn á Ölkeldu í Staðarsveit; sá hét Þórður. Hann eignaðist barn með konu sinni, sem Guðlaugur hét, en snemma á fyrsta ári þess hvarf það úr ruggu, þá það einhvörju sinni hafði verið einsamalt eftir skilið, og fannst hvörgi. Þótti mönnum þetta næsta óskiljanlegt. Var þá farið til þess fornfróða og fjölkunnuga manns Þormóðar í Gvendareyjum og hann beðinn að komast eftir hvar barnið mundi niður komið, en hann svaraði á þá leið að þótt hann gæti vitað hvar það væri væri lítið unnið við það, þar það mundi verða foreldrunum til mæðu einnar og angurs þótt þau fengju það aftur. En þau hertu fast á því að ná aftur barninu, og svo kom hann með barnið að ásjáandi heimilismönnum, undan fossinum á Litlu-Furá sem er smáá er rennur þar hjá túninu. Það varð fífl og gekk nakið þá er það lá ekki í bóli sínu. Þannig lifði það þangað til á 20. ári, að það dó.
Eitt sinn sem oftar hljóp það til næsta bæjar nakið eins og venja þess var. Þá sá það fullt slógtrog; át það allt úr því nema naflana, því það þurfti mikinn mat.
Þetta mun vera sönn saga, en hvört barnið hefur verið sama sem hvarf vita menn ekki að fullyrða.