Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bjarni Bjarnason
Bjarni Bjarnason
Sonur Bjarna þessa „undir Hesti“ hét og Bjarni. Hann lærði í Skálholtsskóla, en var vísað þaðan á bug 1664 ásamt öðrum pilti, Einari Guðmundssyni frá Straumfirði, vegna þess að þeir höfðu báðir í sameiningu skrifað galdrablöð nokkur sem fundust í beðjardýnu Einars. Voru á þeim blöðum alls 80 galdrabrögð og 59 af þeim með myndum og galdrastöfum. Kom það upp í framburði Bjarna fyrir Brynjólfi biskupi að hann hefði skrifað þann hluta blaðanna, sem hann kenndist við, fyrir þremur árum í Kálfeyrarveiðistöðu á Vestfjörðum eftir kveri Erlings Ketilssonar frá Þórustöðum í Önundarfirði sem þá væri sigldur fyrir nokkrum árum í England. Með því þessir skólapiltar neituðu að nokkrir aðrir væru sér samvitandi um þetta tiltæki og allt eins hinu að þeir hefðu reynt á dáð og dugnað þessara galdraformála og stafa sluppu þeir hjá annari hegningu en útrekstri úr skóla snemma í aprílmánuði fyrrnefnt ár. Var þá annar þeirra nítján ára, en hinn tvítugur að aldri. En 22. júní s. á. voru þeir báðir sigldir héðan af landi til Englands og dó Einar þar.
Þremur árum síðar, eða „1667,“ segir annállinn, „kom út Bjarni Bjarnason undan Hesti úr Englandi austur í Austfjörðum,“ og mun hann síðan hafa reist bú á föðurleifð sinni því árið 1687 flutti hann sig frá Hafurshesti í Önundarfirði að Arnarbæli á Meðalfellsströnd í Dalasýslu á einum byrðingi mjög stórum. Fór hann úr Önundarfirði í kringum Vestfirði, suður fyrir Bjargtanga, yfir Látraröst og fyrir framan Skor. Fimm manna fars bát hafði Bjarni á eftir byrðingnum; engan mann lét hann vera í bátnum, en kaðall lá úr byrðingnum í bátinn, og hafði Bjarni skran á honum. Vind hafði Bjarni hagstæðan, norðvestan að veðurstöðu, en veðrið óx svo opnum skipum var lítt fært á sjó að vera og voru þeir þá komnir í Látraröst. Bjarni var aftur á byrðingnum og sá þaðan strák á miðskipsþóftunni í bátnum þar sem enginn maður átti að þó vera. Var strákur þessi að færa sig æ lengra fram eftir bátnum þangað til hann var kominn fram í barka. Bjarni gaf grannt gætur að þessu og þar með því að veðrið var nú sem mest að vaxa og sjór að umhverfast. Bjarni hélt á bolöxi, gekk að kaðlinum sem lá úr byrðingnum í bátinn, hjó á hann og sagði: „Farðu nú með bátinn og það í honum er; meira færðu ekki þó meira hefðirðu átt að sækja.“ Strákurinn fór leið sína með bátinn og það sem í honum var, en Bjarni sigldi til Bjarneyja á Breiðafirði og þaðan til Arnarbælis á Fellsströnd því það var eignarjörð hans. Bæði átti hann margar jarðir á Meðalfellsströnd og stóreignir vestur í Önundarfirði, en fór þaðan vegna galdra; því öfund lá á honum svo hann hélzt þar ekki við vegna ásókna og sendinga og var ein af þeim strákurinn sem hann gaf fimm manna farið á vald í Látraröst sem nú var sagt, og höfðu öfundarmenn Bjarna sent honum hann til að drepa hann á þessari hættuför í kringum Vestfirði.
Eftir að Bjarni var setztur að í Arnarbæli var honum þó ekki fullfritt fyrir vesturbyggjum í Önundarfirði og sendu þeir honum margar smágrýlur sem honum varð ekki mjög bilt við. Þær grýlur komust ekki lengra en í þekjuna upp yfir rúmi hans og voru þar milli þekju og súðar. Það eitt gjörðu þær honum til meins að honum varð ekki svefnsamt fyrir þeim á nóttum þangað til Þormóður Eiríksson frá Gvendareyjum kom að Arnarbæli. Bjarni tók Þormóði vel og bauð honum að leggja sig upp í rúm sitt um daginn því Þormóður varð að bíða þar eftir sjávarfalli. Þormóður þáði boðið og lagði sig upp í rúmið. Þegar hann hafði legið nokkra stund stendur hann upp og finnur Bjarna. Bjarni spyr hvort hann hafi getað sofnað. Þormóður svarar: „Hvernin átti ég að sofa þar sem þú hefur djöfulinn uppi yfir þér?“ „Taktu hann þá burtu,“ segir Bjarni. „Svo skal vera,“ segir Þormóður. Hann gengur þá að þekjunni uppi yfir rúmi Bjarna og rífur hana upp þangað til hann kom niður að súð; tínir hann þar upp milli þekju og súðar fullt mjólkurtrog af mannabeinum. Sagði Þormóður að þar hefðu lent grýlur þær sem Bjarna hafi verið sendar og hafi þær orðið þar aflvana til allra hluta nema til að halda vöku fyrir Bjarna.
Bjarni var lögsagnari Páls Vídalíns í Dalasýslu 1696-97 eftir að hann var kominn að Arnarbæli og dó 1723 á fjórða árinu um áttrætt.