Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Bjarni spáir fyrir skipi

Eitt sinn er sagt að Bjarni hafi verið staddur á Húsavík á skipi og líka Tómás stóri, Sunnlendingur, og margir aðrir sjófarendur. Var fjöldi manna í búð um kvöldið að höndla; þá gekk Tómás út og segir: „Það verður skiptapi á morgun.“ Bjarni tekur undir og segir: „Þetta getur verið, en ekki verður það hann Bjarni fíritanni.“ Daginn eftir fórst skip það er Tómas var á og drukknaði hann þar og fjórir menn aðrir. Endir.