Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brýnslugaldur
Brýnslugaldur
Þeir menn hafa verið til sem hafa kunnað brýnslugaldur. Þeir snúa sér undan, hrækja á brýnið og draga svo sem tvisvar á eggjárnið sem þeir brýna, og þá flugbítur það. En þetta kemur þeim sjálfum helzt að haldi, því ef þeir brýna fyrir annan mann fer valla hjá því að hann skaðar sig á hnífnum eða eggjárninu, hvurt sem það er, og verður þar af versta mein jafnvel þó skurðurinn sé lítill. Svo er sagt að sá sem vill læra þenna galdur vinnur það til að sleikja froðu þá sem kemur út af vitum deyjanda manns.
Járngerður hét stúlka í Vestmanneyjum. Hún gerði til fisk með sjómönnum. Einu sinni beit knífur hennar illa svo hún gat ekki flatt fiskinn og sagði: „Gjöri nú einhvur ykkar svo vel, piltar, og brýni knífinn fyrir mig.“ „Ég skal gjöra það,“ sagði einn af sjómönnum, tók hnífinn, sneri sér frá, hrækti á brýnið og dró tvisvar á knífinn og fékk henni hann aftur og sagði: „Varaðu þig nú á honum; hann bítur.“ Hún trúði því laust og skar á fiskinn, en knífurinn hljóp í gegnum hann á augabragði og snerti fingurinn á henni. Þar af var svo mikið mein að hún varð handlama allt sumarið. – Þetta skeði um vor.