Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Brennivínskvartélin
Einu sinni kom maður að Vogsósum sem hét Brynjólfur og var bóndi í Vælugerði í Flóa. Hann hafði brennivín á einum hestinum því hann kom utan úr Keflavík og ætlaði heim með lest mikla. Eiríkur bað hann að gefa sér í staupinu. Brynjólfur tímdi því ekki og neitaði því og hélt áfram austur að Ölfusá. Hann ætlaði yfir um á Óseyri, en hesturinn sem brennivínskvartélin voru á fældist, hljóp fram af bakka í hyl í ánni og setti af sér baggana og sneri svo til sama lands aftur. Brynjólfur sér að kvartélin eru töpuð og heldur heim, en daginn eftir rak bæði kvartélin á Vogsósafjöru og voru þau óskemmd. Eiríkur prestur hirti kvartélin og tæmdi þau. Síðan gjörði hann Brynjólfi orð um að kvartélin hans hefði rekið hjá sér og hefði hann hirt það sem í þeim var, en kvartélin sjálf geymdi hann þangað til þeirra væri vitjað.