Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Dísa launar greiða

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Dísa launar greiða

Maður nokkur að nafni Filpus bjó einhverju sinni í Einarshöfn. Einu sinni á gamlárskveld kemur hann út og sér lest koma utan sandana. Þegar lestin kemur nær sér hann konu nokkra ganga spölkorn á eftir og þekkti hann að það var Stokkseyrar-Dísa. Hann gekk í veg fyrir lestina og mælti til hennar: „Þreytt hlýtur þú að vera þar sem þú getur ei fylgt lestinni; viltu ekki að ég ljái þér hest austur eftir?“ „Ég tek mér til stærstu þakkar,“ mælti hún. Þá lét hann leiða hest út úr hesthúsinu og lagði á hann lítilfjörlegt reiðveri og fékk henni. Hún sté á bak og mælti: „Þú skalt ekki þurfa að hugsa neitt um hestinn; farðu fyrstur á fætur á morgun og gakktu út í hesthúsið. Þar muntu finna hestinn og í faxi hans dálítinn hlut sem þú skalt eiga fyrir lánið á hestinum. Svo lengi sem þú átt hlut þenna mun þér ekkert grandað geta hvað sem þú aðhefst.“ Bóndi gjörði eins og hún sagði, fór út í hesthúsið um morguninn, sá hestinn, leitaði í faxi hans og fann þar rauðan stein vafinn í léreftstusku. Hann tók hann og lét á botninn á peningakistli er hann átti. Hann hélt vinnumann einn að nafni Símon sem stal kistlinum frá honum með peningunum og steininum í. En af því að hann hafði steininn gat enginn náð peningunum frá honum. Enn lifa niðjar Símonar í fjórða lið, og er mælt að einn þeirra hafi steininn.