Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumar Dr. Hallgríms Schevings

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Draumar dr. Hallgríms Schevings

Þegar dr. Scheving sigldi til bóknáms við háskólann í Kaupmannahöfn varð skip það síðbúið sem hann fór með af Eyjafirði og með því skipherra var bæði deigur og duglítill velkti þá lengi, bæði fyrir norðan land og sunnan það. Loksins urðu þeir að hleypa inn að Egerö í Noregi og liggja þar fyrir mótvindi. Svo lögðu þeir þaðan, en urðu að snúa aftur og hleypa í annað sinn til sömu hafnar. Dr. Scheving man nú ekki glöggt hvort heldur það var í fyrra eða seinna sinnið sem þeir lágu undir Egerö að hann dreymdi draum þann sem þegar skal getið. Faðir hans, séra Hannes, var nokkru áður en dr. Scheving sigldi búinn að fá Laufás í Þingeyjarsýslu, en áður hafði hann verið prestur að Helgastöðum í sömu sýslu. Eldri bróðir dr. Schevings hét Hans og var þá dáinn fyrir nokkru, en Lárus yngri bróðir hans var hjá föður þeirra í Laufási og þá orðinn stúdent er Hallgrímur sigldi.

Eina nótt meðan beir lágu í fyrrnefndri höfn undir Noregi dreymdi dr. Scheving að hann þóttist ríða brúnum hesti frá Helgastöðum og Lárus bróðir hans með honum öðrum hesti bleikum. Þykir honum þeir ætla ríða yfir svonefnt Bæjarvað á Reykjadalsá rétt fyrir neðan Helgastaði. Var þar allgott vað á ánni öndverðlega á dögum séra Hannesar á Helgastöðum. En á seinni árum hans þar hafði áin breytzt, kastað sér að austurlandinu og grafið sig þar niður þó hún væri straumlítil svo hún var orðin á sund undir eystri bakkanum, en hann var Snarbrattur, og hár moldarbakki og örmjór götusneiðingur upp úr ánni svo hætta var að ríða ef rigning var eða bleyta í götum þar sem við því var búið að hesturinn mundi renna aftur á bak ofan í hylinn. Þegar þeir bræður komu á vaðið þykist dr. Scheving taka eftir því að Lárus er æði dauðadoppulegur og dregst heldur aftur úr enda er hestur hans heldur latur og seinfær. Hallgrímur þykist þá kalla til bróður síns og segja honum að knýja hestinn betur fram. En Lárus gerir ekkert að því. Hverfur Lárus svo bróður sínum úr draumnum þar á vaðinu og bleiki klárinn með honum. En dr. Scheving þykist halda áfram og kveinka sér ekkert við að ríða á sund því hann var því alvanur. Síðan ríður hann yfir ána, en þegar hann kemur upp í sneiðinginn í eystri bakkanum þykir honum þar vera komið svo stórt bjarg yfir þvera götuna að tvísýnt sé að þar sé fært yfir. Hann þykist þá hugsa með sér hvort hann skuli heldur taka það til bragðs að mjaka hestinum aftur á bak hægt og hægt ofan í hylinn, því svo var gatan tæp að enginn kostur var að snúa honum við, eða hann skyldi freista að hleypa honum á bjargið. Og þó hann örvænti að hesturinn kæmist yfir það ræður hann það þó af að hleypa klárnum á klettinn, en hugsar sér að koma móð í hann áður og þykist slá hann með svipuskaftinu milli eyrnanna. Við það brá Brúnn svo að hann hefur sig upp yfir bjargið, en rasar um það með annan framfótinn svo dr. Scheving þykist steypast fram af honum upp fyrir bjargið og hrökk upp við byltuna. Um morguninn sagði hann skipherranum draum sinn og sagðist halda að þeim mundi eitthvað hlekkjast á á leiðinni, en komast þó af. Skipherrann sagði að sér kæmi það ekki á óvart þó eitthvað yrði þeim mótdrægt í þessari ferð því svo hefði spáð sér kona ein á Akureyri áður en hann fór af Íslandi. Þegar þeir lögðu í annað sinn út frá Egerö gekk þeim ferðin enn skrykkjótt unz þeir komu i Jótlandshaf, þar steytti skipið á sandrifi nærri Anholt, en þokaðist þó loksins af rifinu aftur eftir hálfa klukkustund fyrir lagkænsku matsveinsins. Þóttist þá dr. Scheving hafa komizt upp fyrir bjargið er skipið rann af rifinu og hugsaði ekki meir út í drauminn fyrr en haustið eftir að hann fékk bréf að heiman og var honum í því sagt lát Lárusar bróður síns. Áttaði hann sig þá á því að það hefði verið fyrir dauða Lárusar er honum þótti hann ríða bleikum hesti og hverfa sér sjónum.

Hinn drauminn dreymdi dr. Scheving eftir að hann var orðinn kennari við skólann á Bessastöðum. Hann var þar fyrst ókvæntur, en trúlofaður konu sinni sem hann á enn, frú Kristínu Gísladóttur. Drauminn dreymdi hann veturinn eftir að hann hafði fastnað sér konuefni sitt og gjört um leið svo ráð fyrir við tengdamóður sína að hann kæmi norður vorið eftir að eiga dóttur hennar og að hún færi svo suður með þeim hjónum og yrði hjá þeim á Bessastöðum. Þenna sama vetur dreymdi dr. Scheving að honum þykir tengdamóðir sín tilvonandi koma til sín og hann fara að impra á því við hana hvort það standi ekki við sama að hún fylgi dóttur sinni suður að Bessastöðum og verði þar. Honum þykir hún þá segja nei, hún ætli í Hafnarfjörð. Þetta þykir honum kynleg ráðabreytni og það því heldur sem hann þóttist vita í svefninum að hún þekkti engan mann í Hafnarfirði. En þegar dr. Scheving vaknaði og fór að hugsa betur út í drauminn kom honum í hug að tengdamóðir sín mundi ef til vill eiga skammt eftir og eiga vísa heimvon til hafnar. Enda frétti hann lát hennar með næsta pósti að norðan um veturinn.