Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumkona og draummaður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draumkona og draummaður

Jón Daníelsson í Vogum sem fyrr er getið var ekki síður merkilegur að því að hann var draummaður mikill, og auk þess sem hann átti bæði draummann og draumkonu dreymdi hann alloft merkisdrauma. Draumkona þessi réð honum í svefninum ýms heilræði hvernig hann skyldi haga því eða því eða hverja aðferð hann skyldi hafa við fyrirtæki sín. Hún vísaði honum og á það sem hann glataði eða missti á einhvern hátt og varð honum jafnan að góðu ef hann fór í öllu að ráðum draumkonunnar.

Það var einu sinni seinni hluta ævi Jóns að týnt var fyrir honum silfurskeið. Hann lét leita hennar dyrum og dyngjum alstaðar sem honum gat til hugar komið. Eina nótt þar á eftir kom draumkona til hans í svefni og þykist Jón spyrja hana um skeiðina; hún segir að hann skuli leita í buxunum sínum. Jón lætur þegar um morguninn leita í öllum sínum buxum og fötum, en allt kom fyrir ekki. Þegar fundum þeirra bar saman næst segir Jón að ekki hafi skeiðin fundizt, en hún segir að þá hafi ekki verið vel leitað því þar sé hún niður komin sem hún hafi sagt. Eftir það lætur Jón byrja nýja leit og er nú sjálfur með í henni og leitar í öllum buxum sínum og fötum svo hann þykist viss um að skeiðin getur hvergi leynzt þar og hættir svo leitinni að hann finnur ekki að heldur. Þykist hann nú genginn úr skugga um að draumkonan hafi logið að sér, en þess hafði hann aldrei fyrr var orðið. Þegar hún kemur næst til hans segist hann ekki finna skeiðina. Hún segir að hann hafi þá enn illa leitað því hvergi sé skeiðin annarstaðar en hún hafi sagt. Jón fyrtist við það og segir henni að koma aldrei fyrir sín augu framar fyrst hún vilji fara með þá lygi því nú hafi hann sjálfur leitað. Eftir það hvarf draumkonan frá honum og kom aldrei til hans eftir það. En veturinn eftir er Jón fór að hugsa til róðra lét hann taka skinnbrók sína ofan úr eldhúsi sem þar hafði hangið frá því vorinu áður og fannst þá skeiðin í annari brókarskálminni.

Um draummanninn sagði Jón það að sér virtist hann snoðlíkastur Tærgesen kaupmanni í Reykjavík. Einu sinni þegar draummaðurinn kom til hans sýndi hann honum inn í eilífðina. Honum þótti hann sýna sér tólf menn bláklædda er allir voru bundnir með járnviðjum. Hann þóttist engan þeirra þekkja, en einn þóttist hann vita að væri Skúli Magnússon landfógeti eftir því sem hann hafði heyrt frá honum sagt. Spurði hann þá draummanninn hversu lengi þeir menn ættu við þann kost að búa, en hann svaraði: „Til dómadags.“ „Hvað verður um þá síðan?“ segir Jón. Hann svarar: „Guðs miskunnsemi er ómælanleg.“ Ekki er sagt að hann hafi sýnt Jóni fleira í það sinn.

Í öðru sinni var það er Jón var vestur á Tálknafirði á skútu sinni og hafði þá búið nálega tuttugu ár í Vogum og verið alla þá stund mesti uppgangs- og lánsmaður að honum þótti draummaður sinn koma til sín í svefni og segja: „Þegar þú ert búinn að búa tuttugu ár í Vogum fer auðna þín hnignandi. Flyttu þig því inn í Firði (Hvalfjörð eða Borgarfjörð) og reistu þar bú. Þar muntu verða eins mikill uppgangsmaður næstu tuttugu árin eins og þú hefur verið í Vogum.“ Eftir það hvarf maðurinn. En Jón vildi ekki flytja byggð sína úr Vogum er hann hafði allt þangað til átt svo miklu láni að fagna. En sannast þótti það er draummaðurinn sagði honum að heldur rénaði en óx auðsæld hans er hann var búinn að vera full tuttugu ár í Vogum.[1]

Oft dreymdi Jón og auk þess sem hann varð var við draummann sinn eða draumkonu, og skal hér nú segja eina draumsögu er Jón hefur sjálfur frá sagt. Einu sinni var Jón kominn í Reykjavík á teinæring eða áttæring stórum eftir mófarmi. Hafði hann lagt skipinu um kvöldið úti á höfninni, en svaf með hásetum sínum í landi um nóttina. Þá dreymdi hann að hann þóttist vera staddur hér í bænum, honum þótti og dóttir sín ein er hann hafði misst uppkomna, karlmanns ígildi til mannskapar, koma til sín og ráða á sig. Hann þóttist taka á móti og gekk svo lengi, að hann þóttist þurfa alls síns við að neyta til að verjast föllum. En loksins fer svo að hann kom henni undir og vaknar við það. Einn af þeim sem með honum voru var mesti ofurhugi eins og Jón, en miklu framgjarnari. Um morguninn var suðurferðaveður allgott, en Jón lét sér hægt og hafði ekkert ferðasnið á sér. Skipverji Jóns sem á var minnzt vakti þá máls á því við hann hvort hann ætli ekki að leggja suður. Jón kvað nei við. Hann segir að það sé skömm fyrir þá að leggja ekki suður í þessu veðri og kallar það bleyðuskap Jóns og skorar fast á hann. Jón var nokkuð bráðlyndur og segir að það sé þá bezt að fara, en ekki komi sér á óvart þó þeir fái sig fullreynda, Leggja þeir svo suður og gekk það vel allt suður undir Brunnastaðatanga. En þegar þeir ætluðu að leggja fyrir tangann bráðrauk hann á móti þeim með steinóðan réttsynning svo umhverfði sjónum á augabragði. Var þá ekki um annað að gjöra en snúa við og náðu þeir með illan leik inn í Hafnarfjörð um kvöldið. Sagði Jón það síðan að þá hefði hann verið hættast kominn á sjó á ævi sinni, en því hefði hann ekki viljað fara úr Reykjavík um morguninn að sig hefði grunað af draumnum hvernig fara mundi.

  1. Það hefur annars verið almenn trú að engum lánist sama jörðin lengur en tuttugu ár til íbúðar auk þess sem það er tekið fram um Málmey.