Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draummaður

Þegar maður vill fá sér draummann biður maður vin sinn eða vinkonu áður en hann deyr að segja sér allt það er maður vill vita. Kemur þá hinn dauði þrjár nætur í röð til manns og ógnar manni á alla vegu. Geti maður nú staðizt ógnanir hins dauða þá kemur hann síðan hverja nótt í draumi til manns og segir manni allt er mann fýsir að vita. En það skal maður varast að rengja draummann sinn eða þræta við hann því þá segir hann manni ekkert framar. Ýmsir menn hafa átt að hafa draummenn eða draumkonur, samanb. sögu Gísla Súrssonar.