Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Draumur maddömu Möller

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Draumur maddömu Möller

Árið .... dreymir madme. Möller í Reykjavík að bróðir hennar sem var í Sellandi í þeim stað sem Friðriksborg heitir kemur til hennar þá hún var í Reykjavík úti á Íslandi og segir við hana: „Nú er ég dauður.“ Hún svarar hönum: „Þú segir það ei satt, þú lifir eins og ég, eða veiztu ei af því að þú ert að tala við mig?“ Við þetta þykir henni bróðir sinn styggjast og klípa sig í handlegginn og segja: „Ég skal sýna þér hvört ég er ekki dauður.“ En um morguninn er blár blettur á handleggnum.

Hún gleymir draumnum. En nokkrum tíma þar eftir kemur fógeti Sigurður Björnsson Thorgrímsen inn til hennar og verður litið á handlegg hennar og mælti: „Hvað kemur til þess að handleggurinn á þér er blár og kraminn?“ Þá minnist hún draumsins. En er skip koma frá Danmörku á næsta vori þar eftir fréttir hún viðskilnað bróður síns; en af því hún mundi ei nóttina nær hana drauminn dreymdi verður ei með vissu sagt hvört það hafi verið um sama bil og bróðir hennar andaðist, en þó er meining manna að so hafi verið.