Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eftirmaður Hálfdanar

Þegar séra Hálfdán resigneraði Felli fór hann að Hólum í Hjaltadal; vildi hann fá að ráða hver eftirmaður sinn yrði. En biskup fór ekki að því, heldur veitti Fell séra Guðmundi í Grímsey. Einn morgun þegar biskup kemur út er séra Hálfdán úti og segir: „Nú er séra Guðmundur að bera á skip á Miðgörðum (í Grímsey), en óvíst er hann nái landi í kvöld.“ „Hann nær það ef guð vill,“ segir biskup. „Ekki er það nú víst,“ segir prestur. Með það skilja þeir talið. Hverfur séra Hálfdán eða lokar sig inni og þóktust menn verða varir um að hann hefði hjá sér vatn og skel. En biskup fór í kirkju og var þar allan daginn til kvölds.

Nú er að segja frá séra Guðmundi að hann hefir þægan byr unz hann kemur undir Dalatá. Þá kemur mót honum hvínandi rok með manndrápasjó. En rétt í sama bili verður lognrák í og eftir þessari lognrák róa þeir, því hún viðhélzt alltaf unz þeir náðu lending í Sléttuhlíð um kvöldið.