Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og kerlingin
Eiríkur og kerlingin
Einu sinni átti Eiríkur prestur ferð austur yfir Þjórsá og á austurleiðinni kom hann í búð á Eyrarbakka að fá sér á pelann (því honum þótti gott vínið). Þegar hann gekk inn í búðina sá hann kerlingar tvær er sátu undir búðarvegg. Önnur spyr hvur þar færi. Hin svarar þá: „Þekkirðu ekki hann Vogsósa-Grána? hann er þó auðþekktur,“ „Það er skrýtið að sjá hann Vogsósa-Grána.“ Þær felldu tal sitt, en Eiríkur hélt áfram ferð sinni. Og er hann kom austur að Hraunsá sér fylgdarmaður hans kerlingu koma hlaupandi eftir þeim og bað prest bíða. Hann kvað tímann of nauman til þess. Þeir ríða allhratt unz þeir koma að Þjórsá við Sandhólaferju og stíga af baki. Þá kemur kerling hlaupandi og hefur elt þá þangað utan af Eyrarbakka hvíldarlaust og er uppgefin af mæði og þreytu og komin úr öllum klæðum nema nærfötunum; hún staðnæmist hjá þeim er þeir biðu bátsins. Eiríkur snýr sér til kerlingar og mælti: „Snúðu aftur heillin góð, þú ert búin að sjá hann Vogsósa-Grána. Segðu þú hafir nú séð hann og þér hafi þótt hann skrýtinn, en hæddu ekki oftar meinlaust fólk.“ Kerling fer þegar aftur, en prestur sagði förunaut sínum að hann hefði látið kerlingu elta sig til að leiða henni að uppnefna og spotta menn.