Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og stúlkan
Einu sinni var stúlka nokkur sem átti barn og bar það út og var önnur stúlka, vinkona hennar, í vitorði með henni sem Ragnhildur hét og var hún annaðhvort skyld eða kunnug séra Eiríki. Þetta varð uppvíst og fannst barnið og var stúlkan dæmd og hélt sýslumaður henni í ströngu varðhaldi og lét marga menn vaka yfir henni. Stúlkan var mjög stúrin yfir þessu og einnig vinkona hennar Ragnhildur að hún gat ekkert hjálpað henni eða fundið síra Eirík.
Einu sinni bar svo við að síra Eiríkur þurfti að finna þennan sama sýslumann í sínum erindum og fer hann af stað og kemur til hans kvöldinu áður en átti að taka stúlkuna af eða drekkja henni. Sýslumaður tekur vel á móti honum og er síra Eiríkur þar um nóttina og sefur í herbergi sér. Ragnhildur sem var á næsta bæ fréttir þetta, fer um nóttina heim á sýslumannssetrið. Hún veit hvar síra Eiríkur muni sofa og fer á gluggann til hans og kallar til hans; hann vaknar og spyr: „Hvað viltu mér barnið mitt og hver ert þú?“ Hún segir honum að hún heiti Ragnhildur og hvaðan hún sé, og hann kannast þá strax við hana. Hún segir honum að hún sé komin hingað til hans til að biðja hann að hjálpa vinkonu sinni sem sitji hér í varðhaldi og eigi að drekkja á morgun. Hann segist gjarnan frelsa mannslíf ef hann geti, en hér muni ekki svo hægt við að gjöra. Hann segir: „Geturðu komizt inn til hennar barnið mitt?“ Það segist hún ómögulega geta því húsið sem hún sé í sé harðlæst og margir vaki þar yfir henni. Síra Eiríkur klæðir sig, gengur út og biður Ragnhildi að vísa sér á gluggann á húsinu sem hún sé inn í. Hún gjörir það. Hann sezt í gluggann og sér að inni situr stúlka mjög stúrin. Prestur tekur til að kveða eitthvað í glugganum og sofna þá strax varðmennirnir. Hann gengur síðan inn í [húsið] og getur lokið upp fangelsinu og tekur í hönd stúlkunni og leiðir hana þegjandi út. Hann skipar strax Ragnhildi að sækja hest sinn og segir stúlkunni að setjast á hann og segir: „Bleikur, farðu heim að Vogsósum.“ Klárinn hverfur strax út í myrkrið, en prestur fer að sofa aftur. Um morguninn kemur prestkonan fyrst út á Vogsósum og sér Bleik þar á hlaðinu og stúlku við bæjardyrnar. Hún heilsar henni og spyr hana hvað þessu valdi, Stúlkan segir henni þá upp alla söguna og sér að prestur hefur viljað hjálpa henni og segir henni að koma inn og felur hana undir hjónarúminu og færir henni þangað mat.
En það er nú aftur að segja frá á sýslumannssetrinu að um morguninn kemur það hljóð upp að varðmennirnir sofi, fangelsið sé opið og fanginn sé horfinn. Sýslumanni bregður illa í brún við þetta og segist ekki skilja hvernig á þessu standi því hann hafi sjálfur lokað fangelsinu í gærkvöldi og þetta hafi aldrei orðið varðmönnunum fyrr á. Sýslumaður fer að tala um þetta við síra Eirík og segir hann: „Það er mjög slæmt, mitt barn, að passa ekki betur fanga sína,“ þó hann eigi ekki að ásaka eða ætli að ásaka hann fyrir þetta. Síra Eiríkur spyr hvort ekki sé farið að leita. Hann segir það sé ekki enn farið til þess og biður nú síra Eirík hjálpa sér. Hann segist ekkert geta hjálpað honum, en hann býðst til að reyna að leita með fleiri mönnum ef sýslumaður vilji. Hann vill það gjarnan. Síra Eiríkur biður þá um að sækja Bleik sinn, en þegar komið var að hesthúsinu var húsið opið og Bleikur í burtu. Síra Eiríkur verður reiður út af þessu og segir að flest sé vel passað á þessum bæ, ekki hafi þeir einu sinni getað passað hestinn sinn, og segist hann vera viss um að Bleikur sinn hafi farið strax heim að Vogósum því hann standi hvergi annarstaðar við. Prestur segir að sýslumaður verði að ljá sér hest ef hann eigi að fara að leita, því ekki fari hann gangandi, og gjörir sýslumaður það. Nú fer síra Eiríkur að leita með mörgum mönnum og leita þeir nú lengi og finna hana hvergi og koma við svo búið heim aftur til sýslumanns. Síðan afgjörir síra Eiríkur í mesta flýtir erindi sín við sýslumann og fer að þeim afloknum heim til sín. Kona hans segir honum um stúlkuna og segir honum hvar hún geymi hana. Honum líkar það vel.
Eftir nokkurn tíma kemur sýslumaður þangað með mörgum mönnum og vill finna prest. Prestur heilsar honum og segir: „Komið þér sælir barnið mitt, hvert ætli þér að fara?“ Hann segist koma hingað að leita að stúlkunni, því hún sé hér. „Hver hefur sagt yður það barnið mitt?“ segir síra Eiríkur. Hann segir að gamall maður blindur sem viti margt hafi sagt sér að síra Eiríkur hafi svæft varðmennina, lokið upp fangelsinu og sent hana burt um nóttina á Bleik sínum að Vogsósum og sé hún vissulega hér og viti prestur af henni, og vilji hann að hann láti hana strax af hendi. Síra Eiríkur segir að þetta séu ósannindi og hafi stúlkan aldrei komið hingað, en þeir megi gjarnan leita, en prestur býður þeim hvort þeir vilji ekki borða áður. En sýslumaður er reiður og vill það ekki og segir að nú skuli strax leita. Prestur segir það sé velkomið, opnar allar dyr og segir sýslumanni að leita alstaðar. Sýslumaður leitar alstaðar, en finnur hvergi stúlkuna. Hann finnur hvergi heldur herbergi hjónanna og spyr síra Eirík að hvar rúmið hans sé. „Barnið mitt,“ segir prestur. „þarna upp á lofti.“ Sýslumaður fer þangað og sér þar vel uppbúið rúm og heldur það sé hjónarúmið, rífur allt upp úr því og leitar vandlega og finnur ekkert og hættir við leitina. Síra Eiríkur segist klaga sýslumann á alþingi og ef það dugi ekki fyrir kóngi fyrir ósannan áburð á sig, heimreiðina til sín með mörgum mönnum og fyrir þjófaleit á bæ sínum að ósekju, ef hann borgi sér ekki tiltekna peningasummu fyrir þetta tiltæki sitt. En sýslumaður verður reiður og vill það ekki og segist nú skuli leita betur og býður að koma með ljós og leitar hann nú með logandi ljósi, en það fer á sömu leið, hann finnur ekkert og fer við svo búið í burtu. Um nóttina er barið á dyrum og er sagt að sýslumaður sé þar kominn, en síra Eiríkur bannar að ljúka upp og fer hann við það aftur í burtu.
Þegar fer að líða að alþingi segir síra Eiríkur við vinnumenn sína að þeir verði að ríða á þing með sér því hann ætli að krefjast gjalda fyrir heimreiðina. Þegar þing er byrjað þá ríður hann til þings og klagar þar sýslumann fyrir heimreiðina og krefst bóta þar fyrir. Þá verður sýslumaður hræddur og borgar síra Eiríki mikla peningasummu.
Stúlkan er alltaf undir rúmi síra Eiríks og spyr síra Eiríkur hana einu sinni hvernig henni líði. Hún segir sér líði vel. Um sumarið fer síra Eiríkur í kaupstað á Eyrarbakka og segir nú stúlkunni að koma með sér og búa sig til ferða og fara þau af stað. En þegar þau eru komin nálægt kaupstaðnum þá fara þau af baki og leggur síra Eiríkur yfir hana kápu sína og segir hún skuli alltaf hafa hana yfir sér og segir meðan hún sé með sér í kaupstaðnum skuli hún alltaf vera með sér. Stúlkan var dauðhrædd og hélt nú ætti að draga sig fyrir dóm eða hún þekktist nú. Þegar þau koma í kaupstaðinn þá er vel tekið móti þeim og spyr kaupmaður síra Eirík að hver þessi ungi maður sé sem með honum sé, og segir síra Eiríkur það sé drengur sem hann hafi verið að kenna og ætli hann nú að láta hann sigla og fá far handa honum. Síðan fer prestur með stúlkuna út á skip og biður kapteininn um far fyrir þennan pilt og fær hann það, og segir síra Eiríkur hann skuli ekkert kæra sig um hann þegar hann sé kominn á land. Síðan tekur síra Eiríkur stúlkuna á eintal, fær henni miða og segir hún skuli geyma hann alltaf á brjóstinu og muna sig um að geyma hann vandlega því meðan hún hafi hann muni henni ganga vel. Hún skuli hafa kápuna yfir sér meðan hún vilji, og síðan fær hann henni peningapyngju og segir sýslumaður gefi henni þetta og þykir henni það skrýtið; hún skuli borga fyrir sig af þessum peningum og áður en þeir séu uppi muni eitthvað rætast úr fyrir henni og hann segir henni að fara strax inn í Kaupmannahöfn sem hún komi, og síðan skilur prestur við hana.
Kapteinninn fer vel með þennan unga mann (nefnilega stúlkuna) og fær henni herbergi út af fyrir sig. Hafa þau fljóta ferð og strax sem þau koma til Kaupmannahafnar fer hún strax inn í staðinn og biður um gistingu hjá borgara einum og borgar hún fyrir næturgreiðann. Borgarinn spyr þennan unga mann að hvaðan hann sé og segir hann honum það, og spyr hann að hvað hann ætli eða kunni að gjöra. Hann segir það vera lítið. Borgarinn spyr hann að hvort hann geti ekki farið með þénurunum sínum út á akur og starfað þar. Það segist hann skuli reyna og fer hann með þeim og horfir fyrst á hvernig þeir fari að og svo getur hann gjört það líka. Nú er hann þar lengi og fær fæði sitt fyrir vinnu sína.
Einu sinni ber svo við að kona borgarans tekur léttasótt, en getur ekki fætt og allir læknar eru sóktir og það dugar ekkert. Nú kemur þessi íslenzki maður af akri um kvöldið og var það alltaf vani hans að hann kom inn til borgarans á hverju kvöldi. Nú kemur hann inn til hans þetta kvöld og sér hann að mjög illa liggur á borgaranum. Hann spyr hvað því valdi. Hann segir honum það að kona sín liggi rétt aðframkomin og geti ekki fætt. Íslenzka manninum þykir þetta slæmt og spyr borgarann að hvort hann megi ekki koma inn til konu hans. Hann vill það feginn, en íslenzki maðurinn segir að allir og hann sjálfur verði að fara út úr herberginu og er það gjört. Þegar hann kemur inn leggur hann af sér kápuna og hjálpar konunni svo hún fæðir. Hún kallar þá á borgarann og biður hann einan að koma inn og læsa og segir honum að barnið sé komið og allt hafi gengið vel. Honum þykir mjög vænt um þetta, en undrast að þar er kvenmaður og spyr hvað þessu valdi og hvernig á þessu standi. Hún segist ekki mega segja honum það og segir borgarinn það sé ekki vert að spyrja hana að því því margar orsakir kunni að vera til þess að hún hafi yfirgefið fósturjörð sína. Hún sýnir honum kápuna og segir hún hafi þá náttúru að þegar maður sé búinn að leggja hann yfir sig þá sýnist maður karlmaður og leggur hana yfir sig og sýnir honum og segir honum að maður á Íslandi hafi gefið sér þessa kápu. Nú leggur hún alveg niður kápuna. Borgaranum þykir svo vænt um þetta að hann kemur því til leiðar að bróðir hans sem var þar í staðnum gengur að eiga þessa stúlku. Unntust þau vel og gekk henni alltaf vel meðan hún lifði, og dó í góðri elli og tók aldrei miðann sem Eiríkur prestur á Vogsósum gaf henni, af brjóstinu.