Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Eiríkur og svikni unnustinn
Maður nokkur sem fór til vers gisti um nótt á Vogsósum; hann var mjög hryggur. Eiríkur kallaði hann afsíðis og bað hann segja sér hvað að honum gengi. Hann var tregur til þess, en sagði honum loks að unnustan sín hefði sagt sér upp áður hann fór og bað nú Eirík ásjár. Hann kvað það allóhægt.
Um kvöldið lætur Eiríkur sinn mann hátta í hvurju rúmi og [er] sjálfur síðast á ferli. Nú er barið að dyrum og fer Eiríkur til dyra. Þar er komin stúlka í skyrtu og nærfati og rennvot; því rigning var. Hún heilsar presti og bað gistingar, kvaðst vera dauð í kulda. Hann lætur hana koma inn og spyr hvurnig á ferð hennar standi. Hún mælti: „Ég fór út í kvöld hálfháttuð því mér kom í hug að vita hvurt þvottur hefði verið tekinn inn þegar regnið kom. Ég ætlaði þangað sem hans var von, en villtist í myrkrinu og komst loksins hingað.“ Eiríkur mælti: „Nú er ekki um gott að gjöra, hér er húsfyllir af fólki og geturðu hvurgi komizt fyrir nema ef þú vilt fara upp fyrir manninn þarna í rúminu,“ og benti til ferðamannsins sem lá grafkyrr. Hún kveðst gjarnan vilja það heldur en deyja í kulda. Fer hún upp í fyrir ofan manninn og þekkti hann þar unnustu sína og hún hann. Hún var hjá honum um nóttina og kom þeim vel saman. Þar eftir giftust þau og urðu góðar samfarir þeirra.