Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fúsi gerir presti rúmrusk
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Fúsi gerir presti rúmrusk
Fúsi gerir presti rúmrusk
Einu sinni kom farandkona ein að Leirulæk á laugardagskvöldi síðla og spurði Fúsi hana hvört enginn hefði verið kominn á Langárfossi – því hún kom þaðan. Hún kvað prestinn hafa verið þar kominn og ætlað að gista, en hann ætlaði [að] messa á Álftanesi daginn eftir. Þegar Fúsi er þessa vísari orðinn fer hann innan skamms að hátta, en á sunnudagsmorguninn er hann árla á fótum, fer upp að Langárfossi og nær presti í rúmi, ræðst á hann þegar sofanda og hýðir hann vægðarlaust hæls og hnakka á milli, því presturinn gat engri vörn fyrir sig komið, tekur síðan tjörukirnu er hann hafði með sér haft og steypir úr yfir höfuð presti svo hár hans verður bikhella ein og gat hann ekki messað þann dag.