Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Feigðardraumur
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Feigðardraumur
Feigðardraumur
Í febrúarmánuði eitt sinn dó stúlka fjórtán ára sem Kristjana hét á Fossá í Brjámslækjarsókn. Nálægt því sem hún var grafin í kirkjugarðinum á Brjámslæk dreymdi vinnukonu á Brjámslæk að hún þóktist komin að Fossá og þar ætti hún að hátta niður í rúm Kristjönu. Vinnukona þessi fór um vorið eftir burt frá Brjámslæk til vistar í Trostansfjörð, en um Jónsmessuleytið kom hún að norðan kynnisferð, dvaldi lítinn tíma, veiktist af meinlætum sem lengi höfðu í henni búið, svo hún lagðist og lá þungt og deyði 28. júlí á Brjámslæk og var þar jörðuð í kirkjugarðinum næst eftir Kristjönu. – Varð þá ljós merking draumsins.[1]
- ↑ Skv. dánarskýrslu Brjámslækjarprestakalls (í skiptaskýrslum) 1854: Kristjana Jónsdóttir, hr.óm., Fossá, d. 16/2, 14 ára; Guðfinna Jónsdóttir, vk., Trostansfirði, d. 28/7, 60 ára (fjórir deyja þó á tímabilinu á milli, en sumir þeirra a. m. k. kunna að vera grafnir annars staðar).