Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Finnbjörn á Sæbóli

Maður hét Finnbjörn; hann bjó að bæ þeim í Aðalvík er að Sæbóli heitir. Hygginn var hann og hagorður. Meintu það margir að hann væri kraftaskáld og fjölkunnugur. Það var þá tíðkað af Dýrfirðingum að sækja við á sokallaða Vesturalmenninga. Legaðist þeim oft og lögðu skipum á Sæbólshöfn og gistu að Finnbjarnar. Halldór er maður nefndur af Skaga við Dýrafjörð. Stýrði hann sexæringi hvurt vor á Strandir og stundum tvívegis. Einu sinni legaðist honum fulla viku að Sæbóli. Það var einn morgun að hann kom að máli við bónda og biður hann gefa sér leiði til Dýrafjarðar. Þá varð Finnbirni staka þessi af munni:

Kann ég ekki kul að herða;
kúnstin mín er valla slík.
Dýrfirðingar drýgri verða
dónunum í Aðalvík.

En það er sagt að ekki liði langt áður á féll blásandi byr, og notaði Halldór færið og komst heim um kvöldið. Á hvurju vori færði hann Finnbirni smjörfjórðung og sauðarfall, enda hafði hann leiði til og frá meðan hann fór á Strandir og Finnbjörn lifði.