Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Fiskiveiðin
Það var einhverju sinni að Hálfdán prestur réri á sjó með alla vinnumenn sína til fiskiveiða; var veður blítt og logn; lágu þeir beint fram undan Tjörnum og höfðu úti handfæri. En er leið að miðjum degi tók að rjúka heima á Tjörnum og ræða vinnumenn prests á milli sín um það hvað Steinunn gamla muni hafa til soðningar í dag. Prestur segir hvert þeir muni mikið vilja til vinna að fá að sjá það er kerling syði. En hásetar verða upp til handa og fóta og biðja prest fyrir hvern mun að freista ef hann gæti veitt þeim það eftirlæti. Og er lítil stund leið kemur prestur með á önglinum inn af borðstokknum trog fullt af sauðaslátri. Prestur réttir hásetum sínum trogið og segir þeim muni óhætt að neyta slátursins því ekki muni Steinunn telja það eftir þeim; taka þeir til matar og eru kátir yfir feng sínum. Prestur hafði dregið lúðu mikla um daginn og lá hún fram í barka skipsins, og er stund leið frá því að hásetar höfðu lokið slátrinu verður prestur þess var að lúðan er horfin. Verður honum ekki annað að orði en að hann segir: „Alténd vill kerling hafa nokkuð fyrir snúð sinn,“ og er þetta haft að máltæki síðan, enda er þess eigi getið að Hálfdán prestur hafi gjört rekstur að um lúðuhvarfið.