Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Flugan (1)
Kölska var alltaf gramt í geði við Sæmund prest fróða því hann fann til þess hversu hann fór einatt halloka fyrir honum. Hann reyndi því með öllum ráðum að hefna sín á honum þó það vildi ekki heppnast. Einu sinni gjörði hann sig að dálítilli flugu og lagðist undir skánina á mjólkinni í askinum prestsins og ætlaði sér þannig að komast ofan í hann og drepa hann. En þegar Sæmundur tók askinn sá hann undireins fluguna, vafði skáninni utan um hana og svo líknarbelg þar utan um og lét böggulinn út á altari. Þar varð flugan að hírast á meðan Sæmundur embættaði í næsta skipti á eftir. Þegar úti var leysti prestur upp böggulinn og sleppti kölska burtu. Er það haft fyrir satt að kölski hafi aldrei þótzt komast í verri kröggur en að liggja á altarinu um embættið hjá Sæmundi presti.