Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Galdra-Antoníus

Einu sinni bjó í Grímsey norður maður nokkur að nafni Antoníus; hann var hreppstjóri. Er sagt hann hafi upp á ýmsan hátt ráðið af dögum þá sveitarómaga sem þar voru; hann hafði gjört sumum missýningar og látið þá villast fram af björgum svo þeir hröpuðu til dauðs. Hann sókti sjóróðra mestan part ævi sinnar, en vegna galdra sinna og illa lífernis er sagt hann hafi gjörzt svo hræðslugefinn á seinustu árum sínum að hann öldungis ekki fór [á] sjó þó allir réru, og ekki þorði hann að vaða dýpra fram úr flæðarmáli en sér í ökla. Þá tók hann það ráð að hann renndi færi ofan fyrir Grímseyjarbjarg þar sem sjór féll upp undir; þangað seiddi hann fiskana með fjölkynngi og dró þá upp á bjarg. Hann dró saman ærna peninga; er sagt það hafi verið hálftunna full, en fyrir andlát sitt setti hann hana niður í eldhúshornið í Grenivík og bannaði öllum að hræra við eftir sinn dag fyrr en næstu hundrað ár væru liðin nema hjákona hans Margrét að nafni mátti grípa til hennar í lífsnauðsyn, en ekki er þess getið að nokkur hafi átt við hana.

En Jón Halldórsson hét annar fjölkunnugur maður í Grímsey. Þeir eltu lengi grátt silfur og vildi Antoníus allajafna ráða hann af dögum, en tókst ei. Síðast fór svo að Jón leitaðist við að komast úr Grímsey, en Antoníus hindraði ætíð ferð hans með því að gjöra á hríðarbyl áður hann fór. Að lyktum hafði Jón leynilegan viðbúnað á náttarþeli, komst á stað með skipverjum sínum við dögun og nær því fram á mitt sundið, þá fréttir Antoníus til ferða hans, fyllist forneskju og fer á seið.

Nú víkur sögunni til Jóns; hann sér hvar upp gengur hríðarbakki ógurlegur að baki sér. Hann snýr sér við og sezt móti hríðinni, en hvað hann hefur tautað veit enginn, en eigi skall á hríðin. Þeir héldu til Flateyjar, en þá þeir voru skammt frá landi skipar Jón öllum að skinnklæðast, en svo fór að þá þeir voru lentir varð að bera einn heim að kominn dauða, en eigi bar á Jóni. Er sagt þeir Antoníus hafi aldrei átzt við upp þaðan.