Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gandreiðarbeizli

Svo er sagt að sá sem vill búa til gandreiðarbeizli flær húð af dauðum manni og ristir í ólar, en býr til kjálka (stangir) úr mannsbeinum (kjálkum?). Þetta býr hann til á þrem sunnudögum og fer úr kirkju til þess eftir pistilinn, en skal vera kominn inn aftur fyrir guðspjallið. Þegar beizlið er fullgjört má leggja það við lifandi dýr og dauða hluti (hrosshausa, klakatorfur o. s. frv.), og verður það að hesti hvað sem það er og er hann fljótur eins og elding. En sá er munur á dauðum hlutum og lifandi að dauðir hlutir fara með jörðu og komast ekki yfir stór sundvötn, en lifandi dýr fara í lofti og eru enda liðugri í snúningum. Þó eru þau misjöfn, t. a. m. hundur er fljótari en köttur, en köttur er liprari. Sé manni riðið fer hann hæst, er fljótastur og að öllu beztur. Öll lifandi dýr fara yfir hvað sem fyrir er nema sjó. Sá sem ríður má aldrei aftur líta, þá hrapar allt niður.