Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Grímur á Gjögri

Grímur hét maður; hann bjó að Gjögri í Trékyllirsvík. Hann var kallaður margkunnandi. Eitt vor legaðist sjómönnum þar langt yfir þann tíma sem þeir vildu. Voru þeir orðnir nestislitlir, en hart var þá um bjargir norður þar. Óskuðu þeir sér oft að heim væru komnir. Einn af skipverjum hét Guðbrandur; hann var ungur og gleðimaður. Ekki skorti hann mat því ríkur var faðir hans, Hjálmar prestur til Tröllatungu. Oft kom Grímur bóndi til Guðbrandar og gaf hann kalli oft bita hvað hann launaði með ýmsum frásögum, einkum hjátrúar og galdra. Þóttist bóndi fróður í því fremur öðrum og lætur sem ekki væri mikið að gefa þeim ferðaveður ef til nokkurs væri að vinna. Guðbrandur tekur þá upp krónu gamla og sauðarmagál og biður kall gjöra það hann kunni. „Og komi ég hingað að vori,“ kvað Guðbrandur, „skal ég borga þér betur ef við fáum leiði heim á morgun.“ Lofar Grímur að gjöra sem kunni, en ekki skuli þeir fara af stað fyrri hann segi þeim til morguninn eftir. Gengur nú bóndi til rúms og sefur vært að því er Guðbrandur hugði, en þeir vaka sjómennirnir og fara að bera á skip sitt því nokkuð lægði storminn um nóttina. Þegar þeir vóru ferðbúnir gengur Guðbrandur að glugga sem bóndi svaf undir og biður hann klæðast og tala við sig. Gjörir hann so og lofar á ný að gefa þeim leiði. Fara þeir af stað og sjá það síðast til bónda að hann liggur berhöfðaður á grúfu upp á búð þeirra. En logn fengu þeir til Bjarnarfjarðar, en þaðan lítt drægan storm til Húsavíkur sunnan Steingrímsfjarðar. Vorið eftir hittast þeir Guðbrandur og Grímur og sagði Grímur að sinn lærdómur hefði ekki dugað við vantrú Guðbrandar.