Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Guðmundur og Jón á Hjaltabakka

Meðal margra annara er ortu Skautaljóð móti Guðmundi var Jón prestur Grímsson á Hjaltabakka. Enginn af öllum þeim sem móti honum kváðu var eins skömmóttur og illskældinn. Brigzlaði hann Guðmundi um helti sína og kröm og kvað hann skyldi hafa merarstert fyrir staf. Þegar Páll lögmaður Vídalín sá dræpling séra Jóns kvað hann:

Heftu bræði, brenndu fræði
bragsmíðanna,
ljótt er kvæði; ei við æði
aldursmanna.

Í svari sínu til séra Jóns kvað Guðmundur þetta:

Með stertinum þarftu ei styðja mig,
staflaus kör mér veldur,
en þegar beygir ellin þig
á hann þar við heldur.

Það er mælt að þegar séra Jón fékk svar Guðmundar hafi hann verið að smíða í smiðju sinni, og brá þá svo við að hann stakk sig með knífi í lærið og var jafnan haltur síðan. Eignuðu menn það ákvæðum Guðmundar.