Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hálfdan prestur þjónar Hvammsbrauði

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hálfdan prestur þjónar Hvammsbrauði

Svo er sagt að einn tíma væri prestlaust í Hvamms- og Ketuprestakalli. Þjónaði þá Hálfdán prestur í Felli því um hríð og reið Grána sínum yfir Skagafjörð þveran; var þó sjó auður og ísalög engi. Á þeim ferðum lokaði hann enum nyrðra munna Bauluhellis er átti að ganga í gegnum utanverðan Tindastól endilangan. Bauluhellir sést enn og er nú aðeins fimm eða sex faðma langur. Hann gengur við sjó niður inn í hinn nyrðra enda Tindastóls. En það er í sögnum haft að annar munni hans hafi að fornu verið í Atlastaðadal. Sá dalur gengur vestan á Tindastól og upp frá Atlastöðum; yrði hellirinn þá að hafa verið nær hálfri mílu á lengd. Nafn sitt er mælt hann hafi af því að einn tíma hafi sækýr komið út af þeim munnanum er á dalnum var.

Í þetta mund átti að hafa verið svo mikill tröllagangur og óvætta á Ketubjörgum að eigi þótti fært um alfaraveg þann sem eftir björgunum liggur. Var það jafnan vandi presta er þeir riðu til messugjörðar í Ketu að þeir tóku að hringja með bjöllu þá er þeir komu að Presthól – sá hóll stendur við veginn, kippkorn fyrir innan björgin – og héldu því fram unz þeir voru komnir út um björgin. Þenna reimleika tók Hálfdán prestur af, en lagði það ráð til um leið að prestar skyldi taka upp hringingu þá er áður er getið og kvað þá mundi hlýða. Til merkis um þessar tröllabyggðir í Ketubjörgum er það talið að þau hafi haft þing í skarði því er liggur gegnum björgin og er þar síðan nefnd Tröllalögrétta. Þar sést enn girðing nokkur kringlótt, mjög forn, í miðju skarðinu.