Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hálfdanarhurð

Utarlega á Skagafirði er Málmey og er í henni einn bær. En það eru álög á henni að enginn bóndi má þar lengur vera en nítján ár, og skal nú þegar sýnt hvað við liggur:

Bóndi einn sem Jón hét bjó í Málmey. Hann sá sér ekki færi að fá sér jörð í landi þegar nítján árin voru liðin, enda festi hann og lítinn trúnað á álög þau að konan ætti að hverfa frá hverjum þeim sem byggi lengur en nítján ár í Málmey, og var hann þar tuttugasta árið. Fór þá kona hans að verða fremur undarleg og að lokunum hvarf hún. Fer nú bóndi og leitar ráða til sóknarprestsins síns, séra Hálfdáns í Felli, og spyr hann hvað hann haldi hafi getað orðið um konuna. „Það kann ég að fara nærri um,“ segir prestur, „en ég held þú sért litlu bættari að vita það.“ „Mig langar ósköp til að sjá hana,“ segir Jón. „Hverju heldurðu þú verðir ánægðari þó þú sjáir hana þar sem hún er nú?“ segir prestur. Jón sókti alltaf á að fá að sjá hana, hvar og hvernig sem hún væri, og sagði þá prestur honum loksins að fyrst hann sækti svo fast á, þá væri ekki annað en reyna að sýna honum hana og skyldi hann koma til sín á tilteknum degi. Nú kemur Jón á tilteknum tíma og ganga þeir til sjóar og sjá þar gráan hest standa í fjörunni. „Hér verðum við nú að tvímenna á,“ segir prestur, „en mundu mig um það, Jón, að nefndu aldrei guð á meðan við erum á leiðinni.“ Nú fara þeir báðir á bak og slær prestur þá í hestinn og ríður út í sjóinn og norður fyrir framan land, og ber ekkert til fyrr en þeir koma út á móts við Stráka,[1] þá hnýtur hesturinn. Verður Jón þá hræddur og fer að tæpta á að biðja guð að hjálpa sér. Þá sló prestur í hann keyrinu og segir: „Manstu ekki hvað ég sagði þér, Jón? Ekki var annað en skriplaði á skötu.“ Nú halda þeir áfram fyrir framan Siglufjörð og Siglunes og svo fyrir framan Héðinsfjörð unz þeir koma að Hvanndalabjargi vestan við Ólafsfjörð. Þar nemur prestur loks staðar framan undir bjarginu. Er þar að sjá eins og stór hurð í bjarginu; lýkst hún upp og koma þar út tvær tröllkonur, mjög stórar og allar helbláar; leiða þær milli sín þriðju tröllkonuna sem er nokkru minni, en öll líka helblá nema hvítur kross í enni. – „Komdu sæll, Jón minn,“ segir hún og vill láta Jón koma til sín. „Þarna sérðu konuna þína, Jón.“ segir prestur; „ég sagði þér mundi varla verða stór ánægja að sjá hana; en farið þið nú inn aftur,“ segir hann við skessurnar, „og skuluðu ekki sækja fleiri konurnar.“ Fóru þær svo inn, en prestur lokaði eftir þeim hurðinni. Sést hún enn í dag og er kölluð Hálfdánarhurð. Síðan riðu þeir alla sömu leið til baka á gráa hestinum. Sagði þá prestur Jóni að varla mundu konur meir hverfa úr Málmey, en þó sagðist hann engum vilja ráða til að eiga það undir að búa þar tuttugu ár.

  1. Þeir eru rétt vestan við Siglufjörð. J. N.