Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hústóftin á Finnbogastöðum

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Hústóftin á Finnbogastöðum

Guðmundur hét maður Bjarnason. Hann bjó að Finnbogastöðum. Son átti hann er Magnús hét, gáfaðan og ekki trúgjarnan á hið gamla galdrarugl og huldufólkssögur. Nefndur Magnús giftist Guðrúnu Jónsdóttir ættaðri að austan. Þegar þau voru nýgift tók Magnús að húsa; byggði fyrst svefnhús handa þeim hjónum, og var það byggt upp úr rúst einni sem sagt var að gamli Sveinn[1] hafði bannað við að hreyfa. Vandar Magnús hús þetta og þegar lokið er smíðinni flytja þau hjón sig þangað. En þá nótt er þau sofa þar fyrsta dreymir hann illa og lætur sem verst má verða í svefninum. Vaknar konan og getur nauðuglega vakið mann sinn og er hann vaknar varpar hann mæðilega öndinni, en vill fátt tala um drauminn; er hann þá orðinn veikur og leggst litlu síðar. En það er sögn að konan þættist sjá vofu sem vildi taka um háls honum og þar bólgnaði mjög. Eftir þessa legu gat hann valla sungið eða kveðið, en áður hafði hann verið snjallrómaður. Var húsið brotið niður og hefur þar ekki verið byggt síðan.

  1. Mun vera Sveinn Alexíusson (um 1721-1794) sem bjó á Finnbogastöðum frá 1784 til dauðadags. Um söguna sbr. Draugurinn á Finnbogastöðum.