Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hallgrímur á Guðnabakka
Hallgrímur á Guðnabakka
Það hefir lengi verið – og svo er enn í dag – að þeir sem hafa fljótara orðið auðmenn en alþýða hefir þókzt skilja þá hefir það þegar verið haldið yfirnáttúrlegt og hafa þeir óðara verið sagðir „í skollabrókum“. Þannig var með Jón ríka í Móhúsum, Egil í Njarðvík og svo fleiri, og ganga munnsögur um auðsöflun beggja þeirra.[1]
Einn af þeim sem sagður hefir verið í skollabrók var Hallgrímur á Guðnabakka í Borgarfirði; hann var auðmaður hinn mesti.
Þegar húsbruninn varð hjá honum[2] vildi mönnum það til lífs að bóndi sá er Jón hét og bjó á Gilsbakka sá eldinn um nóttina og fór til bjargar með nokkrum mönnum. Var þá fólk allt í svefni á Guðnabakka. Fólkinu varð bjargað og fáum öðrum hlutum; var eldurinn svo ákafur að fleiru varð ekki bjargað. Þá var Hallgrímur svo ákafur í eldinn eftir eignum sínum að tveir menn höfðu fullt í fangi að halda honum og það svo að hann sleit sig úr höndum þeirra og inn í eldinn og inn á stofuloftið, náði þar í kistuhring einn – hún var full af peningum – og atlaði að kippa henni úr eldinum. Í þeim sömu svifum féll húsið og gróf hann þar í eldinum. Þessi hans stofa var svo auðug að allt rann úr eldinum, feitin og málmurinn. En er hrúgan var rofin fundust þar fáir hlutir óbrunnir nema skollabrókin og hjartað óbrunnið innan í,[3] enda sýndist leitarmönnum hjartað lifandi og kvika. – Þar sem stofan hafði verið byggði Jón Ólafsson sambýlismaður hans smiðju, en hversu gætilega sem farið var með eldinn var þó ávallt að kvikna í henni, enda þóttust menn sjá Hallgrím vera að tendra eldinn.