Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Hallgrímur kveður til stúlku

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Hallgrímur kveður til stúlku

Séra Hallgrímur Pétursson var kraftaskáld. Einu sinni var hann á ferð í Borgarfirði og kom þar að einum stórbæ og var þar um nótt. Hann var hvurki fríður né ríkmannlega til fara. Yngisstúlka þar á bænum fór að færa spott að honum um kvöldið. Hann sat á rúmi móts við hana. Þá kvað hann:

Horfi ég nú á hendina á þér
og hana fyrir mér virði.
Enginn er sú sem af henni ber
í öllum Borgarfirði.
En eignast muntu argan þræl
sem ekki er skóþvengs virði.
Hvorki muntu heil né sæl
hér í Borgarfirði.

Hann sá að reiðisvipur kom á stúlkuna. Þá bætti hann við:

Vékstu fyrri vondu að mér,
víf, en góðu eigi.
Enginn maður unni þér
upp frá þessum degi.

Hún hafði síðan enga eirð né ró í Borgarfirði. Var henni ráðlagt að fara þaðan og það gjörði hún, en aldrei varð hún vinsæl upp frá því og maðurinn hennar varð böðull og voru í þá daga hafðir til þess ómerkilegir menn.