Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Horna og Þuríður

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Horna og Þuríður

Á fyrri tíðum bjuggu tvær systur í Tungu í Skutulsfirði; önnur þeirra hét Þuríður, en hin Horna. Það fór fyrir þeim eins og máltækið segir: Þeim verður að sinnast sem saman búa – því vegna ósamlyndis þeirra á millum byggði Horna sér bæ upp á túninu og gjörði garð yfir þvert túnið til að skipta því á millum þeirra systra, en Þuríður var ekki enn ánægð yfir systir sinni og vildi ekki hafa hana svo nábýla sér og hætti ekki fyr með ójöfnuð sinn en Horna hlaut að víkja fyrir henni. Byggði hún sér þá bæ fram á Tungudal sem kallaður var Hornustaðir. Á hefur runnið ofan með túninu sem ber nafn af bænum. Enn í dag sjást augljós merki til Hornustaða. Þar hefur verið fallegt bæjarstæði enda er auðséð að þar hafa verið stór húsakynni og garður umhverfis túnið. Þegar Þuríður veit að systur sinni líður þarna vel og hún er búin að koma upp aftur reisugum bæ kemur henni einu sinni til hugar að fara að heimsækja Hornu, en í hvaða tilgangi það verið hefur sýnir fylgjandi saga.

Það var vani Þuríðar að reka pening sinn í landareign Hornu, en hún vísaði honum ætíð með stillingu frá sér aftur því hún vildi fría sig við stórmennsku systur sinnar. Að þessu sinni sem oftar var hún að vísa skepnum Þuríðar heim á leið til Tungu og var komin spölkorn ofan fyrir Hornustaði þegar Þuríður kemur í flasið á henni. Þær mætast þar á dálitlu holti í mýrunum. Þarna lenti þeim saman fyrir alvöru og segir ekkert af samtali þeirra (því enginn var til frásagnar), en það þykjast menn vita að þarna muni þær hafa heitzt og sokkið ofan í hólinn sem þær stóðu á; því til sannindamerkis sjást enn í dag tvær holur ofan í hann og er hann síðan kallaður Orustuhóll, og systurnar sáust ekki úr því ofanjarðar. Ekki er heldur getið um að Hornustaðir hafi síðan byggðir verið, en þessi saga er í almæli eins og hún er hér skrásett.