Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jólanóttin

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Jólanóttin

Einu sinni var Þorleifur á ferð austur í Ölvesi og kom hann að bæ til vinar síns á aðfangadagskveldið fyrir jól. Þorleifur biður bónda að lofa sér að vera um nóttina. Bóndi sagði honum húsin til reiðu, „en vandkvæði nokkuð er á því að vera hér heima þessa nótt; því allir hafa þeir orðið ærðir og trylltir sem það hafa gjört.“ „Ekki hræðist ég það og mun ég eigi að síður heima vera þó svo sé.“ Fór nú bóndi og menn hans að búa sig til aftansöngs eins og þá var siður. En svo var háttað að baðstofa var byggð á palli og var sinn þverpallur í hvorum enda. Undir öðrum pallinum voru lömb nokkur sem bóndi hafði tekið frá. En á milli pallanna var svið mikið og rúmgott. Þorleifur lét nú reka lömbin undan pallinum og gróf þar gröf í gólfið svo hann gat staðið niðri í henni. Fór hann þá niður í gröfina og lét refta yfir. Gat hafði hann á ræfri gryfjunnar og gat hann séð gegnum það um alla baðstofuna. Því næst lét hann reka lömbin undir pallinn aftur og sópa moldtaði yfir gryfjuna svo ei sást nývirkið.

Að þessu búnu fóru allir heimamenn burt til aftansöngsins. Leið svo fram undir miðja nótt að ekki varð Þorleifur neinnar nýlundu var. En þá sér hann hvar koma piltar tveir. Þeir höfðu ljós með sér og lýstu vandlega um allan bæinn. Þegar þeir koma á baðstofugólfið sögðu þeir: „Hér er hreint. hér er heitt, hér er gott að leika sér.“ Síðan fóru piltarnir út aftur. En að litlum tíma liðnum heyrir Þorleifur undirgang mikinn. Sér hann þá fjölda fólks koma inn í baðstofuna. Allir voru þeir prúðbúnir. Þeir höfðu með sér borð eitt; settu þeir það á mitt gólfið. Síðan settu þeir mat og vín á borðið og tjölduðu innan alla baðstofuna. Settist nú fólkið niður við borðið og fór að éta og drekka. Nú koma og inn sveinarnir sem fyrst komu og höfðu milli sín karl einn gamlan og illilegan. Karlinn skyggndist um er hann kom inn og þefar í allar áttir og segir: „Hér er maður, hér er maður.“ Piltarnir sögðu að þar væri enginn. Settist þá karlinn við borðið og sveinarnir.[1] Snæddu nú aðkomumenn og drukku með gleði mikilli. En er þeir voru búnir að því fóru þeir að dansa. Þetta létu þeir ganga alla nóttina. En er Þorleifur hélt að dagur væri kominn drynur hann í holunni: „Dagur, dagur.“ Varð þá aðkomendum svo bilt við að hver hljóp út sem búinn var. Skildu þeir allt eftir, bæði borðið, borðbúnaðinn, tjöldin og nokkuð af klæðum sínum; því þeir höfðu farið úr þeim um nóttina þegar þeim fór að hitna við dansinn. Piltarnir tóku karlinn og drógu hann milli sín; var hann þá linur sem lyppukveikur og bleikur sem nár af ótta. Það sagði Þorleifur að þegar fólkið ruddist út hefði það verið eins og þegar lömbum er hleypt út úr stekkjum.

Þegar allir voru út komnir fór Þorleifur upp úr holu sinni. Var þá skammt að bíða unz bóndi kom frá kirkjunni. Varð hann þá feginn að finna Þorleif og þótti nú betur hafa til tekizt en hann hugsaði. Þorleifur sagði honum allt sem fyrir hann hafði borið. Bað hann bónda að hirða það sem álfarnir höfðu eftir skilið og sagði að ei mundi þess verða vitjað. Bóndi vildi að Þorleifur tæki gripina. en Þorleifur vildi ei. Þorleifur sagði að engum mundi verða hætt á þeim bæ þó hann væri þar heima á jólanóttina, og rættist það vel.[2]

  1. Sumir segja að karli hafi þó enn ekki verið grunlaust og hafi hann þá sagt: „Mæli ég um og legg ég á að hver sá maður sem hér er yfir jörðu eður á ærist og villist.“ En hann varaðist ekki það að Þorleifur var neðanjarðar.
  2. Sbr. Vinnumaðurinn og sæfólkið.