Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón Sigurðsson Dalaskálds
Jón Sigurðsson Dalaskálds
Jón son Sigurðar Dalaskálds var kraftaskáld. Hann var enginn vin Leirulækjar-Fúsa. Einu sinni sendi Fúsi honum sendingu. Það voru þrír draugar. Þeir komu til Jóns þar sem hann var á ferð seint um kvöld við á þá sem Dalsá heitir. Jón gat kveðið svo á að þeir réðust hvur á annan og fyrirfóru hvur öðrum. Síðan skrifaði Jón Fúsa ljóðabréf til að láta hann vita að þetta vann honum engan geig og að hann var óhræddur. Þar í eru þessar vísur:
- Dimmt mér þótti Dals við á,
- dróst af gaman að hálfu,
- að mér sóttu þrjótar þá
- þrír af Satans álfu.
- Þeir í lofti léku sér
- líkt og eldibrandar,
- þótti gaman að þessu mér,
- það voru spotzkir fjandar.
Þegar Fúsi dó var Jón hræddur um að hann mundi ganga aftur og drepa sig. Fúsi hafði beðið stúlku eina að vaka yfir sér dauðum frá því hann væri kistulagður, hvurja nótt þangað til búið væri að jarða hann. Kistan var sett í kirkju. Stúlkan vakti eins og Fúsi bað til að passa að enginn snerti kistuna. Fyrstu nóttina kom inn í kirkjuna maður. Það var Jón Sigurðsson. Hann gekk að kistunni og opnar hana. Stúlkan bað hann gera það ekki. Hann skeytti því ekki, tók líkið úr kistunni og tók hrísvönd undan kápu sinni og hýddi líkið allt upp og ofan og kvað sífellt á meðan. Loksins kom blár reykur upp af líkinu og leið að stúlkunni og þá féll hún dauð niður, en reykurinn fór út. Jón lét líkið í kistuna aftur og gekk frá henni eins og hún var, fór svo burt og sagði frá þessu.