Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Jón prestur Þórðarson
Jón prestur Þórðarson
Sá prestur þjónaði á 18. öld Söndum í Dýrafirði er Jón hét og var Þórðarson bróðir Sigurðar prests á Brjámslæk.[1] – Jón prestur var forn í skapi og haldinn fjölkunnugur. Ekki féll vel á með honum og sóknarmönnum og eitt sinn er hann var að útdeila datt hann og hraut kaleikurinn úr hendi honum; uggðu sumir að einhver illviljaður hefði stjakað við presti, en fyrir þessa sök lét Jón biskup Árnason dæma embætti af klerki og fór hann nokkru síðar hryggur burt af staðnum. En er hann kom fyrir svonefndan Holtsmúla skammt frá Söndum er sagt hann hafi litið aftur og mælt að fáir mundu auðugir fara frá Söndum þaðan í frá og þykir það hafa rætzt. Fór Jón síðan til sonar síns og vegnaði vel. Hann sagði að það væri bezt að prestur sá sem eftir sig kæmi gengi fyrstur manna inn í Sandakirkju. Magnús Snæbjörnsson bróðir síra Markúsar í Flatey varð þar prestur næst á eftir. Hann hafði heyrt ummæli Jóns og er mælt hann hafi fleygt hundi inn í kirkjuna, og drapst hann þegar, en prest sakaði eigi. Jón Þórðarson kvað Sandakirkja mundi segja andlát sitt og um sama leyti og hann lézt lestist kirkjan í ofsaveðri miklu og brotnaði að viðum.
- ↑ Séra Jón Þórðarson (1676-1755), auknefndur „dettir“, var prestur á Söndum 1708-1735.