Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kálfshausinn
Kálfshausinn
Maður bjó á Krossnesi sem Þorleifur hét; kona hans hét Guðrún. Unntust þau vel og gekk hún um allar hirzlur ásamt honum nema eina kistu sem sat í skemmunni hjá honum. Lykilinn að henni hafði Þorleifur í buxnavasanum sínum altént, nema einn morgun hafði hann buxnaskipti og gleymdi hann að taka lykilinn og réri hann síðan. En kona hans þvoði buxurnar hans og fann hún þá lykilinn í buxum hans. Hugsar hún að hleypa forvitni í kistuna; hún hugsaði að peningar væru í kistunni. Fer hún með skyndi í skemmuna og lýkur upp kistunni, og sér hún annan kistil í kistunni og finnur lykilinn í handraðanum í kistunni og lýkur upp honum, og þá var þar þriðji kistillinn og þar var lykillinn í handraðanum, og lýkur upp kistlinum. Þá sér hún kálfshaus og geispar kálfshausinn og segir við hana: „Farðu ekki með það sem hann Þorleifur minn á.“ Þá féll hún í öngvit.
Þá víkur sögunni til Þorleifs þar sem hann var lagztur við hákallsveiðar, þá gáði hann í vasa sinn og varð honum hverft við og biður hann menn sína að leysa sig upp og róa í land. Gengur Þorleifur heim og finnur hann konu sína í öngviti við kistu sína opna og var þá kálfshausinn hvorfinn, og þótti Þorleifi það mikið mein. Ber hann þó konu sína inn í rúm, dreypir á hana og hjúkrar henni. Raknar hún þá við, en þegar hún fekk mál var það hennar það fyrst að hún beiddi mann sinn að leggja af galdurinn og það gjörði hann. Buggu þau til dauðadags með gott samlyndi.