Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kýrsteinar

Vestur í Gilsfirði, milli Garpsdals og Gróustaða, er holt eitt sem kallað er Kýrsteinaholt. Dregur það nafn sitt af steinum nokkrum æði mörgum sem standa upp úr því. Steinar þessir eru líkastir stórum taðhrúgum og ólíkir öllu öðru grjóti sem þar er. Þeir eru kallaðir Kýrsteinar, en þeir eru svo til orðnir að Gróa á Gróustöðum breytti kúm prestsins í Garpsdal í steina þessa þá er hún fékk engu við ráðið við prest um það að láta þær eigi ganga í túni sínu eða engi.