Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kirkjuskikk Fúsa
Kirkjuskikk Fúsa
Fúsi var ekki mjög kirkjurækinn og þá sjaldan hann kom til kirkju gat hann ekki kyrr þolað inni meðan messan stóð, og einhvern helgan dag þegar presturinn í Borgarþingum messaði á Álftanesi var Fúsi mjög rásull um kirkjuna og fann prestur að því við hann eftir messu og beiddi hann að sitja með kyrrð og siðsemd undir guðs orði, en þessu tók Fúsi ekki vel og kvaðst oft þurfa að bregða sér út til að kasta af sér vatni; því ekki mundi betra þykja að hann gjörði það á kirkjugólfið.
Næst þegar messað var á Álftanesi kemur Fúsi enn til kirkju. Er nú tekið til messu. Gengur Fúsi í kirkju milli pistils og guðspjalls og hefur kopp sinn bundinn á bak sér og gengur með hann á baki inn eftir kirkjugólfi og í kór og kveður meðan hann gengur innar eftir kirkjunni við raust þessa vísu:
- „Koppinn ber ég hægt á herðum,
- hallast hvergi má,
- fallegt þing með fjórum gjörðum,
- Fúsi kallinn á.“
Síðan leysir hann koppinn af herðum sér og setur undir bekk og sezt síðan niður. Þegar prestur snýr sér fram til að tóna guðspjall stendur Fúsi upp eins og siður er til. Tekur hann nú koppinn og pissar í og býður sessunautum sínum, en þeir fussa og þiggja ei sem nærri má geta; setur hann þá enn undir bekkinn næturgagn sitt og situr með[an] Credo er sungin, en í því prestur gengur frá altari til stóls stendur Fúsi upp og tekur aftur næturgagn sitt og kastar enn af sér vatni og sezt niður aftur og situr nú kyrr meðan prestur prédikar. Talar prestur um það í ræðu sinni hvörsu hættulegt sé andvaraleysið og hræðilegt muni á dómsdegi ástand hinna andvaralausu þegar dómarinn mikli segi við þá: „Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem fyrirbúinn er djöflinum og öllum hans árum.“ Þegar presturinn mælir þessum orðum stendur Fúsi upp og gengur fram að prestskonu sæti og þrífur í hönd hennar og segir hátt: „Komum við þá, Randalín; til okkar talar presturinn.“ Prestskonan streittist við og sat kyrr, en Fúsi gekk aftur til sætis síns og situr til prédikunarloka. En meðan prestur gengur úr stól til altaris tekur Fúsi kopp sinn í báðar hendur og leggur af stað með fram eftir kirkju og kveður um leið við raust:
- „Mikið tek ég mér í fang,
- maðurinn handaloppinn;
- ljáið þið mér nú liðugan gang
- að lalla út með koppinn.“