Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Krákur vinnumaður

Litlu fyrir 1800 var á Hólum í Fljótum bóndadóttir sem Guðrún hét († 1851). Þar var og vinnukona sem hét Sigríður Björnsdóttir og vinnumaður sem Krákur hét († 1835). Krákur lagðist á hugi við bóndadóttur, en hún hafði ógeð á honum. Einu sinni kom Krákur með tvo tilskorna brauðbita og gaf þeim Guðrúnu og Sigríði sinn brauðbitann hvorri. Ekki er getið um hvað Sigríður gerði við sinn brauðbita, en Guðrún fór með sinn brauðbita og gaf hann tík sem þar var á heimilinu. Eftir þetta brá svo við að tíkin varð svo elsk að Kráki að hún vildi aldrei við hann skilja og var sífelldlega að flaðra upp á hann. Þóktist þá Guðrún sjá með vissu hvað sér hefði verið ætlað.