Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Kveðið til varnar

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Kveðið til varnar

Einu sinni var bóndadóttir á bæ. Hún vakti um nótt í rúmi sínu, en aðrir sváfu. Þá heyrði hún að komið var upp á gluggann yfir rúminu og sagt:

„Margt býr í þokunni,
þokaðu úr lokunni,
lindin mín ljúf og trú.“

Bóndadóttir svarar þegar:

„Fólkið mín saknar
og faðir minn vaknar;
hann vakir svo vel sem þú.“

Við það hvarf draugurinn burtu og vitjaði hennar aldrei aftur.[1]

Öðru sinni kom draugur á glugga um nótt þar sem maður lá vakandi. Draugurinn kvað:

„Maður leiddi mann við mjöðm
og mældi hann út með faðmi“

og sagði manninum bæta við. Maðurinn kvað í móti:

„Ærnar tína fjallaföðm
og fengjar skipta baðmi.“

Þóttist þá draugsi hafa orðið ósvinnur fyrir, er manninum varð svo létt um að setja botninn í vísuna.

Maður nokkur hitti einu sinni einn af vítisárum á ferð. Verður maðurinn þá fyrri til en árinn og segir:

„Hvaðan komstu að hitta mig?“

Árinn:

„Héðan af norðurgrandanum.
Sendur er ég að sækja þig
af sjálfum höfuðfjandanum.“

Þá svarar maðurinn:

„Hafðu ekki hót með mig
því helgaður er ég andanum.
Svo búinn aftur sendi ég þig
sjálfum höfuðfjandanum.“

Lötraði árinn þá burtu við svo búið sneypulegur[2]

  1. Sumir segja (Vestfirðingar) að það hafi verið huldumaður sem kvað fyrri vísuna, en aðrir (Sunnlendingar) að það hafi verið útilegumaður og hafi þeir, hver um sig, viljað komast yfir stúlkuna.
  2. Fleira um þess konar skáldskap kemur fyrir seinna í sögunum af Sæmundi fróða og um kölska.