Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Latínu-Bjarni (1)
Latínu-Bjarni
Enn er það að stundum er galdramönnum tregnúið til að neyta kunnáttu sinnar fyrr en lengi hefur verið á þá skorað sem þetta dæmi Latínu-Bjarna sýnir þótt hann hafi stundum verið talinn allfús til hryðjuverkanna.
Einhvern tíma var Latínu-Bjarni (alias Latínu-Björn) staddur á bæ einum; las hann þar fólki til skemmtunar söguna af Karlamagnúsi og köppum hans. Sögðu þá tvær vinnukonur að gaman mundi vera að sjá þá og það sæi á að þeir vissu ekki mikið sem nú þættust vera kunnáttumenn að þeir skyldu ekki geta sýnt þá. Bjarni lét sem hann heyrði þetta ekki. En nokkru seinna bregður svo við að báðar griðkonur þurfa út um kvöldið erinda sinna. Þegar þær ætla að snúa inn aftur stendur Bjarni í dyrum og segir: „Lítið þið ofan á túnhalann, stúlkur.“ Þær gjörðu svo og sáu þar þá alla kappa Karlamagnúsar í skæðri orustu; færðist leikurinn nær með ógurlegum höggum og brestum og víghljóðum. Við þetta urðu griðkonur felmtsfullar mjög og hlupu í fang honum, en hann neyddi þær til að vera úti um stund þangað til af þeim var dregið gamanið til fulls. Síðan eggjuðu þær ekki Bjarna framar.
Þessi dæmi sem nú var getið eru mjög ung, en miklu fleiri og meiri frásagnir fara af galdramönnum á fyrri öldum sem frægir eru orðnir fyrir þekkingu sína og kynngikrafta; slíkum frásögum fylgja flestar þær galdrabrellur sem menn kunna enn frá að segja, einmitt af því sagnirnar sjálfar liggja svo fjarri nálæga tímanum. Hér skulu nú koma þær frásagnir settar eftir tímaröð að svo miklu leyti sem varð sem ég hef náð í um nokkra galdramenn þó sumir þeirra séu áður nefndir við ýms atriði. En ekki er það sízt í þessari grein að ég verð að láta mér lynda að tjalda því sem til er þó bæði vanti, ég veit ekki hvað margar sögur, og heilir kaflar innan um sumar séu síður en ekki munnmælasögur.