Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Móri
Það var venja bænda í Breiðafjarðareyjum og er enn að flytja fé sitt til meginlands á vorum þegar það er gengið úr ull og láta það ganga á afréttum að sumrinu. Þormóður gerði og svo, því hann átti talsvert fé og þar á meðal forustusauð einn mórauðan, sjö vetra gamlan þegar þessi saga gerðist. Móri hafði gengið á fjalli á hverju sumri og ætíð komið að í fyrstu göngum. Þetta haust sem hér ræðir um var gengið þrisvar eins og venja var til, en ekki kom Móri fram að heldur. Er þá sagt að Þormóður kvæði vísu þessa þegar Móri fannst ekki:
- „Mótgangsóra mergðin stinn
- mér vill klóra um bakið;
- illa fór hann Móri minn,
- mikið stóri Sauðurinn.“
Því hann þóttist nú vita að þetta mundi ekki einleikið. Tók Þormóður sér þá ferð á hendur einu sinni um haustið upp að Staðarfelli; það var á laugardag. Daginn eftir var messað á Staðarfelli og fjöldi fólks við kirkju. Þegar úti var og áður en fólk fór frá kirkju spyr Þormóður ýmsa hvort þeir hafi ekki orðið varir við Móra og neita því allir. Þá gall einn maður við sem var þar nærstaddur og heyrði á tal Þormóðar og sagði: „Honum hefur sjálfsagt verið stolið; það er ekki spánýtt hérna á Fellsströnd þó menn fái ekki fé sitt með tölu af afréttum. Betur að allir bifsaðir þjófarnir hérna væru flengdir og hengdir.“ Þá sagði Þormóður: „Jarmaðu nú Móri minn hvar sem þú ert.“ Í sama bili kom feikilegur jarmur upp úr manni þeim sem mest hafði hallmælt þjófunum á Fellsströnd því Móri ærðist og beljaði niðrí honum eins og hann ætlaði að springa. Alla furðaði mjög á þessu; en Þormóður gekk að manninum og bar upp á hann að hann hefði stolið Móra. Maðurinn sá sér ekkert undanfæri annað en gangast við sannleikanum og því með að hann hefði étið sviðin af Móra um morguninn áður en hann fór til kirkjunnar.