Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Magnús leitar liðsinnis Tómasar á Söndum

Illhugi hét prestur sá er var í brauðinu er síra Magnús flutti sig þangað, ærið þrár í lund og kunnáttusamur svo að hvenær sem Magnús prófastur fekk menn til að bera út karlinn varð þeim öllum eitthvað til geigs og fórst það svo fyrir. Seinast fekk Magnús prófastur Tómas á Söndum og annan mann til. En er þeir komu í landareignina féll félagi Tómasar niður með froðufalli. Tómas atyrti hann fyrir vesælmennskuna, gekk að honum og hrækti upp í hann; við það spratt hann upp, og fóru svo heim. Illhugi gerði allt það illt er hann kunni. Hrækti kallinn á báðar hliðar, en síra Magnús þurrkaði jafnóðum með vettlingum sínum. En í holu eina í bæjardyrakampinum fór hráki hans og náði Magnús ekki til að þurrka hann. Stóð sá kampur aldrei síðan hversu sem frá honum var gengið.

Illhugi hafði illt í heitum við prest og lofaði að verða honum og kyni hans til torlegðar. En er Illhugi var dáinn sókti hann að heimilisfólki síra Magnúsar, en lagði ekki til prestsins. Einu sinni í rökkrinu var Margrét kona prófastsins að skammta mat á gólfinu í baðstofunni; kemur Illhugi þar þá og fóttreður hana. Þá segir hún: „Harðar eru klaufir Illhuga.“ Prestur lá þá í rúmi þeirra hjóna og þóktist ekki búinn við komu hans; rís samt upp og kvað:

Stattu kyr á gólfi grár,
í guðs nafni ég særi þig & [cet.].

Eftir það fylgdi hann draugnum eftir kveðandi og stefndi honum frá sér, en ekki hefi ég heyrt hvert. Eftir þetta lézt Margrét Einarsdóttir kona hans af sparki Illhuga.