Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Magnús meðtekur gáfur

Pétur Gunnarsson bjó á Víðivöllum og átti Halldóru Gunnlaugsdóttur í Leyningi Ormssonar lögmanns Sturlusonar. Þau Pétur áttu tvo sonu: Einar Pétursson á Víðivöllum, tvígiftur, og Magnús Pétursson er seinast var prófastur í Skaftárþingi. Magnús lærði í Skálholtsskóla hjá Oddi biskupi Einarssyni. Þar var þá við kennsluna Einar skólameistari, gáfumaður mikill og skáld gott. Magnús Pétursson var treggáfaður og gekk illa lærdómurinn.

Það bar við vetur einn er Magnús var þar í skóla að Einar skólameistari andaðist. Var hann lagður til á líkfjöl og fjölin borin út í kirkju af skólapiltum. Smiður var til fenginn að smíða utan um Einar og voru skólapiltar þar fram eftir kvöldi við kistusmíðið, en Magnús lagði sig fyrir í dyrabekkinn án þess að nokkur gæfi honum gaum. Fóru þeir svo úr kirkjunni og læstu henni. En er þeir voru burtu vaknar Magnús og rís upp. Fer hann svo upp á kirkjubitann og sezt þar. Að tímakorni liðnu rís Einar skólameistari upp af líkfjölinni, leggur nágrímuna og línlökin afsíðis, kallar til Magnúsar og spyr hví hann sé þarna; segir honum að fara heldur í bæinn. Magnús sagðist mundu sitja þar. „Láttu þá allt vera kyrrt hjá mér,“ sagði Einar. „Það mun ég gjöra,“ segir Magnús. Einar fer svo út úr kirkjunni. En er hann er farinn bregður Magnús sér ofan og grípur náklæðið. Að nokkrum tíma liðnum kemur Einar skólameistari aftur og saknar nágrímunnar; segir hann Magnús hafi svikið sig og biður hann fá sér. Það segist hann ekki gjöra nema hann segi sér hvað hann hafi verið að fara. „Það gjöri ég ekki,“ segir Einar. „Þá fær þú ekki skýluna,“ segir Magnús. „Heldur en ég nái ekki náklæði mínu,“ segir Einar, „þá mun ég hljóta að segja þér það: Ég hefi í mörg ár haft girnd til biskupsfrúarinnar, en aldrei fengið vilja mínum fram komið fyrr en nú; – og fá mér nú nágrímuna.“ „Já,“ segir Magnús, „en fyrst verður þú að gefa mér allar gáfur þínar: skáldskap, andagift og sönglist.“ „Það færðu ekki,“ segir Einar. „Þá fær þú ekki heldur grímuna,“ segir Magnús. „Þú ert ekki fær um að meðtaka allar gáfur mínar,“ segir Einar. „Þær vil ég þó allar hafa,“ segir Magnús, „og mun ég víst borið geta; annars færðu aldrei grímuna og skaltu þá verða að dagdraug.“ „Það mun ég heldur til vinna að gefa þér andagift mína en missa grímunnar. Verður þú þá að koma ofan og hlýða mér; en ekki muntu það borið fá.“ „Það mun ég geta,“ segir Magnús; „og skaltu hvergi af draga.“ Magnús fer nú ofan og á kirkjugólfið. Einar skipar honum að leggja sig upp í loft og gjörir hann það. Blæs nú Einar upp í hann og fer svo fram um stund. Er nú farið að svífa að Magnúsi svo honum lá við öngviti. Spyr Einar hann hvort hann skuli ekki hætta. Magnús bað hann ekki af draga; því hefði hann heitið. Blæs hann nú enn og líður Magnús nú í öngvit og raknar ekki úr ómegi fyrr en bjart er orðið.

Um morguninn er menn koma í kirkjuna liggur Magnús í dyrabekknum og þykist hafa sofið þar um nóttina. Smíðuð var kistan og Einar kistulagður. Sungu klerkar staðarins og skólasveinar yfir honum er hann var kistulagður nema Magnús því allir vissu hann var engi söngmaður. Svo er líkið borið til moldar og fatlaðist söngurinn eitthvað hjá þeim. Grípur Magnús þá lagið og syngur af list mikilli. Ætluðu allir að hér mundi Einar skólameistari upp risinn og þóktust allir þekkja rödd hans. Eftir þetta tók Magnús þvílíkri menntun í skólanum að hann skaraði fram úr öllum skólasveinum. Söngmaður hinn mesti og skáld gott var hann; þar með þókti hann margkunnandi. Hann hefir orkt sálma marga og kvæði og þókti merkilegur maður á sinni tíð. Oft var hann fenginn að koma af reimleikum og kveða niður römmustu afturgöngur, svo sem Höfðabrekku-Jóku og Hvamms-Lalla.