Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Mið Jóns á Eiðum
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Mið Jóns á Eiðum
Mið Jóns á Eiðum
Frá því sagði Jón á Eiðum mér í dag[1] að einu sinni í Grenivík gekk honum mjög tregt að afla hákall. Einu sinni dreymdi Jón hann þóktist staddur suðrá Gjögrum, sá þar opnar dyr í klettinn og mann og konu inni. Þóktist hann þá spyrja manninn hvað til komi hann gæti ei aflað hákallinn. Maðurinn sagði honum að færa lávaðinn og leggja hann svo að nefið sem nú væri á móti honum bæri í Borgakrossinn[2] og önnur hillan í bjarginu bæri í hlassið á þriðju hillunni. Hann sagði að þarna væri klettur í sjónum, en það væri eðli hákallsins að sveima í kringum kletta, upp með þeim og upp í brúnirnar. Jón tók síðan upp lávaðinn, lagði á þessu miði, og brást þar ei hákall allan veturinn.
- ↑ Þ. e. 5. okt. 1848.
- ↑ Í Grímsey er Borgakross og Grenivíkurkross. Í þessum nöfnum er nú kross = varða (sbr. Grímseyjarlýsing § 10); en líklegast hafa þar í pápisku verið reistir krossar eyjunni til varnar. Til er og Krosshóll í Grímsey sem að líkum dregur nafn af sömu orsök. Þó er í Grímsey svo frá sagt að á hól þessum hafi maður orðið bráðkvaddur (c. 1760, hann hét Guðmundur Eyjólfsson), og héldu menn Básastelpan (alkenndur draugur í Grímsey, Grl. § 25) hefði drepið hann; var þá ristur kross í hólinn þar sem hann fannst dauður, og þar af er sagt að hóllinn dragi nafn. [Hdr.]