Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Nafri tafri bol bol bol

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Nafri tafri bol bol bol“

Einu sinni [var] draugur einn upp til sveita mjög illur viðureignar. Reyndu margfróðir menn að koma honum fyrir, en það kom fyrir ekki því hann kvað þá niður sem reyndu það. Gjörði hann mikið illt af sér í sveitinni, drap menn og skepnur. Drengur einn ekki langt burtu heyrði þetta; kvaðst hann eigi þurfa langan tíma að kveða þennan niður. En einu sinni um kvöld gengur strákur út; mætir hann þá draugsa og verður þá lítið um kveðjur. Býður draugur honum að kveðast á við sig, en hinn var fús til þess. Kveða þeir nú lengi og hefur strákur ekki við; er hann sokkinn upp að hnjám. Þá tekur hann það til bragðs að hann kallar upp og segir:

Nafri tafri bol bol bol.

Við þetta hættir draugur um stund því hann skildi ekki hvað strákur sagði, en þá herti strákur sig á meðan svo hinn kom öngu fyrir sig og er draugur sokkinn svo að eitt höfuðið stendur upp úr. Þá sagði draugur:

Mér leiðist þitt þvögl,
þú ruglar dimmt mögl.
Hvað gekk þér til hæsirámur
að húka við dauðan mannsbúk?

– og í því sökk hann að fullu. En sveitarmenn sæmdu hann góðum gjöfum fyrir þrekvirki þetta.