Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Oddur lögmaður Gottskálksson og Oddur biskup Einarsson

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Oddur lögmaður Gottskálksson og Oddur biskup Einarsson

Það hefur verið einna almennast að menn hafi á seinni tímum órað fyrir dauða sínum, bæði hvað gamlir þeir mundu verða og sumir jafnvel haft skimu af því hvernig þeir mundu deyja. Einn af þeim var Oddur lögmaður Gottskálksson sem fyrstur manna sneri Nýja testamentinu á íslenzku. Hann sagði fyrir dauða sinn þrem árum eða meir áður en hann dó og með hverju móti hann mundi verða, og er það til sanninda hér um að hann bað margan á því ári að láta heita eftir sér. Oddur reið heiman frá Reynistaðarklaustri um fráfæru 1556 og segir ekki af ferðum hans fyrr en hann kom að Laxá í Kjós á Norðlingavaði. Fylgdarmenn hans sögðu honum að áin væri óreið, en hann vildi ekki heyra það og reið sjálfur á undan móti vilja þeirra. En þegar hann kom út í ána langt nokkuð dýpkaði mjög; vildi hann þá snúa aftur til sama lands, en hesturinn lenti í sandkviku og lá í, en Oddur féll aftur úr söðlinum og ofan í ána og rak fram á eyri eina. Hann var ekki lengur í ánni en svo að hann drukknaði og voru tvær bækur þurrar í barmi hans þegar hann náðist.

Þess er áður getið um Odd biskup Einarsson að hann hafi verið forspár og eru þessi atriði til merkis um það: Einu sinni þegar hann reið heimleiðis úr vísitazíuferð um Austfirði kom hann að Skógum undir Eyjafjöllum. Þar bjuggu þá góðvinir hans, Þormóður bóndi og Halla Grímsdóttir systir Björns málara, og veittu þau alúðlega biskupi og sveinum hans svo að þeir urðu lítt færir að fylgja honum nema Halldór Daðason sem síðar varð prestur í Hruna. Riðu þeir biskup tveir einir frá Skógum að Holti um kvöldið. Séra Halldór sagði frá því löngu seinna að þá hefði biskup sagt sér margt fyrir sem síðar kom fram. Eitt með öðru var það að nú hefði Halldór séð konuefnið sitt, það væri Halldóra dóttir Einars á Hörgslandi, Stefánssonar, og Kristínar systur Höllu í Skógum. Þar með hefði biskup bannað sér að sigla til bóknáms þó hann hefði það í hyggju því honum mundi ekki lánast það, en hann mundi bráðum fá Hruna því séra Gunnlaugur Jónsson sem þá hélt þann stað væri skammlífur. Þetta kom allt fram sem biskup sagði.

Sumarið næsta eftir Skálholtsbrennu 1630 hélt Gísli lögmaður í Bræðratungu stórmannlega brúðkaupsveizlu þeirra Þorláks biskups Skúlasonar og Kristínar dóttur sinnar. Oddur biskup var svaramaður Þorláks biskups, en af því hann var bæði orðinn heilsulasinn og ellihrumur vildi hann heldur sofa í tjaldi sínu en heima í staðnum í Bræðratungu því hann óttaðist glaum og háreysti í slíku fjölmenni sem þar var saman komið. Einn morgun sem oftar gekk Gísli lögmaður til tjalds biskups til að hressa hann og spurði hvort biskup vekti. Sveinar biskups sögðu að hann mundi sofa. Lögmaður gekk eigi að síður inn í tjaldið og sá að biskup svaf; lagði hönd sína á kinn honum og bauð honum góðan dag. Biskup vaknaði við og sagði: „Herra Gísli, nú vaktir þú mig óhentuglega, mig var að dreyma um burtför mína því mínir lífdagar eru bráðum á enda kljáðir.“ Lögmaður sneri þessu í gaman og sagði: „Þið andlegu mennirnir eruð jafnan með ykkar guðhræðslu.“ Biskup segir: „Þegar ég er sofnaður máttu gæta að þínum högum því ekki mun verða langt á milli okkar. En þess bið ég að þú sért við gröft minn og ausir mig einni moldarreku.“ Þetta kom fram því Gísli lögmaður kenndi banasóttar sinnar við gröft herra Odds á jólum næsta vetur eftir þetta, en dó 12. febr. 48 ára gamall.