Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Páll galdramaður
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Páll galdramaður
Páll galdramaður
Páll hét galdramaður nokkur sem bjó í koti nokkru hjá Stóruborg í Húnavatnssýslu og lagðist kot þetta í eyði eftir hans dag. Páll drap konu sína með göldrum þannig að hann risti henni helrúnir á ostsneið og drap smjöri yfir og gaf henni svo að snæða. En þetta komst upp um hann og var hann dæmdur til að verða brenndur, en það henti aldrei hina fróðari galdramenn. Hann var brenndur á Nesbjörgum, en þegar kannað var í öskunni var hjartað óbrunnið; var það þá rifið sundur með járnkrókum og hrukku þá svartar pöddur út úr því; síðan brann hjartað.