Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Páll skáldi

Þar sem Þjóðsögurnar tala um kraftaskáld á vorum dögum sakna ég Páls prests Jónssonar [1779-1846] sem lengi var í Vestmannaeyjum og oft var kallaður í stuttu máli Páll skáldi. Hann var oft á landi, bæði meðan hann var prestur í eyjunum og ekki síður eftir að hann hætti prestsskap. Um hann var það sagt að ef hann vildi út komast til eyjanna þá hafi hann aldrei brostið það. Eitt sinn er sagt hann hafi verið í Landeyjum og viljað komast út. Þetta var um vetrartíma og var þá veltubrim; þá er sagt að um kvöldið hafi hann verið einn á reiki úti við og heyrði þá einhvur hann mæla fyrir munni sér vísu þessa:

Þó mig treginn þjái sízt
þess ég feginn beiði,
sjórinn deyi, verði víst
Vestmannaeyja-leiði.

En að morgni er sagt að komið væri hið bezta leiði.

Eitthvört sinn er sagt að Páll prestur hafi verið í landi um þann tíma vetrar sem sjómenn eru vanir að flytja sig í Landeyjarnar og bíða þar leiðis til eyjanna. Þá voru flestir komnir þangað sem ætluðu út. Þegar þeir hittu Pál og vissu að hann ætlaði út þegar leiði kæmi féllu þeir upp á því að þá skyldu þeir gefa honum sinn pelann hvur af brennivíni er þeir kæmu út ef komið yrði gott leiði að morgni, en allir vissu að honum þókti góður sopinn, og hafi hann þá sagt að það gæti vel orðið þó lítil líkindi væri til þess, en þá var útsynningur og stórbrim. En að morgni var komið bezta leiði og var það ætlan manna að í það skiptið hafi Páll tekið til kvæðanna þó enginn hefði af því að segja, og margir af sjómönnum höfðu glatt Pál með fyrirheitna pelanum er út kom.

Einhverju sinni var Páll á sjó á smáferju (sem í eyjunum er almennt kallað jul) og menn með honum. Þá sló yfir svartaþoku svo þeir vissu ekki hvar þeir fóru, og sáu alls ekki fyrir að þeir gætu fundið eyjarnar. Þegar svona var komið kvað Páll vísur sem ég hef heyrt að væri alls þrjár, en ég hef ekki heyrt nema tvær; þær eru svolátandi:

Augunum mæni ég upp á þig,
allrar náðar gæddan,
skoðaðu veslings skáldið mig
skelfing raunamæddan.
Fram á rétta fær mig leið
fyrst ég bið með óði.
Ég er staddur nú í neyð,
nauðhjálparinn góði.

Létti strax upp þokunni svo hann komst með félögum sínum þangað sem hann ætlaði sér.

Þá eru til vísur eftir Pál sem hann kvað í skapsmunum til annara manna, er höfðu fljóta verkun og hann annaðhvert af sjálfsdáðum eða fyrir bón annara kvað aðrar betri á móti til að bæta úr því sem aflaga fór og hafði eins fljóta verkun til umbóta. En [þar] þær virðast ekki vera skáldinu til sæmdar eða öðrum til nytsemdar að hafa þær um hönd, þá læt ég hjá líða að setja þær hér, en læt mér nægja að setja hér eina til sýnis. Eitthvört sinn við drykkju (en hvers slags samdrykkja það var man ég ekki nú sem stendur) kvað Páll vísu þessa:

Heyrðu kölski mitt á mál
með[an] ég drekk af þessa skál,
Símon, Gísla, Grím og Pál
gleyptu niðrí vambarál.

Þá er sagt að þessum hérnefndu mönnum hafi sortnað fyrir augum og hafi Páll þá samstundis orkt þessa vísu á móti:

Heyrðu Kristur mitt á mál
meðan ég sýp af þessa skál,
Símon, Gísla, Grím og Pál
geymdu bæði á lífi og sál.

Enda er sagt að þá strax hafi þeir orðið jafnhressir sem áður.

Það er ætlan mín að þeir sem voru vel kunnugir lífsferli Páls gæti tínt til nokkur dæmi lík þessu framansagða. Þar að auki var hann forspár um marga hluti og set ég hér tvö dæmi því til sönnunar sem ég veit með fullri vissu að eru sönn:

Fyrir nokkrum árum giftist bóndi í Landeyjum Sæmundur af nafni. Lýsingar fóru fram að venju og brúðkaupsdagur var ákveðinn, en þegar til kirkjunnar kom, að Krossi, þá var prestur veikur og gat ekki aðstaðið. Þá stóð svo á að Páll var viðloðinn á heimili brúðgumans og hafði þá í viku verið í fylliríi og mun um morguninn ekki hafa verið vel rokið vínið úr höfði hans. Það varð þá að ráði að brúðguminn sendi eftir Páli svo athöfnin sem til stóð gæti fram farið. Páll kom og lét til leiðast, þó hálfnauðugur, að gegna hér prestsverkum. Hann hafði enga vígsluræðu, heldur einungis það sem handbókin hefur og allar venjulegar serimoníur, en stóð sig þó í þessu í öllu falli siðsamlega svo sem ódrukkinn maður. En á eftir fór hann orðum um að þetta hefði verið stutthalalegt, en það þyrfti ekki meira með, því hjónabandið yrði ekki lengra en svo. En brúðguminn lifði aðeins viku á eftir.

Annað dæmi er það að hér í þessari sveit[1] var ríkur maður og einhver bezti búmaður. Hann missti konu sína. Hann fór út í Holtasveit og var að biðja sér þar stúlku sem var einbirni ríks manns þar í Holtunum. Um þessar mundir var Páll á ferð hér um sveitina og á einhvörjum bæ varð tilrætt við Pál um bónorðsför þessa manns. Þá sagði Páll að maðurinn fengi ekki þessa stúlku, það væri önnur sem honum væri ætluð. Hér í sveitinni var vinnukona sem bæði var félaus og munaðarlaus og hafði átt barn með giftum manni. Þessi sagði Páll að yrði kona þessa manns, og það svo freklega að hann sagði hún skyldi fá hann. Enda leið ekki langt um að þetta rættist sem engum mundi þó hafa til hugar komið þegar Páll spáði því. Nú er þessi maður dáinn; hann var einn sem drukknaði í síðari skiptapanum í Mýrdalnum í vor.[2] En konan lifir eftir og mun vera einhver hin ríkasta hér í sveit.

  1. Þ. e. Mýrdalnum.
  2. Þ. e. 1864.