Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Reikningsskapurinn fyrir Holtsós

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Reikningsskapurinn fyrir Holtsós

Austur undir Eyjafjöllum á bæ þeim er Raufarfell heitir bjó maður að nafni Kjartan, formaður góður og atorkusamur. Hann dreymir eina nótt nokkru fyrir jól, en man ei drauminn þegar hann vaknar, nema niðurlagið á hönum er hljóðar sem fylgir: Hönum þykir maður koma til sín og segja við sig: „Þú átt að standa reikningsskap fyrir Holtsós“ – en so hét lending skammt frá bæ hans. Af þessum draum fær hann þunglyndi og heldur draumurinn muni boða það að hann eigi að drukkna fyrir Holtsós. En hönum fór sem vant er að frekur er hvör til fjörsins; og til þess að tálma því að draumurinn rætist setur hann upp skip sitt og segir hásetum sínum sem skipráðnir voru hjá hönum að hann ætli sér ei að róa á næstkomandi vertíð án þess þó að segja þeim hvört tilefnið væri. Hásetunum þótti það að sönnu undarlegt, en skipráða sig þó hjá öðrum.

Nú byrjar vertíð og situr Kjartan heima. Nokkru síðar gjörir stórviðri so skip hans tekur upp og brotnaði í spón. Kjartan sem annars var skaðasár maður [varð] feginn tjóni sínu því nú hugsar hann draumurinn sé fram kominn og segir hann nú fyrst bróður sínum Jóni í Drangshlíð drauminn; so berst hann út um sveitina. Fer Kjartan síðan til bróður síns og biður hann að lofa sér að gjöra skip hans út til helminga á móti hönum. Bróðir hans veitir honum þá bæn af því hann vissi hvör afla- og atorkumaður hann var; en sem þeir hafa róið saman nokkra róðra kemur sundurlyndi í bræðurna; því Kjartan var hinn mesti ofstopamaður. Endast ósamlyndið með því að Kjartan gengur úr skipi frá bróður sínum og fer enn lengra í burtu frá bæ þeim sem hann átti heima á og kemur sér í skip hjá öðrum manni sem háseti. Eitt sinn þá þeir eru úti á fiskidrætti hleypur í brim og stórsjó so öll skip hafa sig til lands; so gjörir og skip Kjartans; verða sum fyrri, en sum síðari en hann til lendingarinnar. Næsta skipi sem á undan þeim var reiðir vel af. En sem skip Kjartans er komið að brimgörðunum fyrir framan lendinguna kemur ágreiningur millum skipsfólksins út af því að hann og aðrir hásetarnir vilja fylgja sama lagi; en formaðurinn sem var gamall og ráðsettur maður vill bíða næsta lags. En sem þeir eru að kífa um þetta rýkur Kjartan á fætur, rífur formann frá stýrinu, en sezt sjálfur undir stjórn og segir við hásetana: „Róið þið nú!“ En þetta lag varð þeim of stutt so næsta ólag kemur á skipið og hvolfir því. Öllum hásetunum verður bjargað nema Kjartani sem finnst löngu seinna um sumarið rekinn fyrir Holtsós.

Þennan draum sagði Einar sem var einn af hásetunum á skipinu með Kjartani og sem fór í sjóinn ásamt með hönum, systur sinni, madme. Guðnýju, konu dómkirkjuprestsins síra Árna Helgasonar [í Görðum á Álftanesi, en hann sagði aftur dr. Scheving].