Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Reykjavíkurtjörn
Reykjavíkurtjörn
Reykjavíkurtjörn er sagt að hafi verið til forna full af veiði, silungi, laxi og sjóbirtingi, og varð það þeim sem lönd áttu að henni að góðu gagni. En sumir segja að það hafi verið tveir bræður og hafi annar búið í Hlíðarhúsum, en hinn í Skálholtskoti. Þeir deildu um veiðina í tjörninni því báðir þóktust eiga hana alla, en gátu ekki komið sér saman um að nota hana í bróðerni. Er þá sagt að af heitingum þeirra og ofstæki hafi svo farið að veiðin hafi horfið úr tjörninni, en [hún] orðið full af pöddum og hornsílum, og aldrei hefir nein veiði verið í henni síðan, en þó hafa stundum fengizt þar álar.
Nú er að segja af þeim bræðranna sem bjó í Skálholtskoti að honum þókti illt að eiga násetur við bróður sinn eftir þetta. Tók hann sig þá til og flutti sig vestur að Helgafelli og bjó þar síðan, en bróðir hans bjó eftir á eignarjörð sinni Hlíðarhúsum og fara litlar sögur af honum fyrr en að því kom að hann lagðist veikur; það var banasótt hans og þó með undarlegu móti því hann hafði hvorki frið né ró né heldur gat hann dáið fyrr en hann var fluttur vestur að Helgafelli til bróður síns, sættist við hann heilum sáttum og dó svo eftir að hann hafði gefið Helgafellskirkju jörðina Hlíðarhús fyrir sálu sinni.
Það er ljóst af vísitazíu Jóns biskups Árnasonar á Helgafelli 21. september 1724 að Helgafellskirkja hefir eignazt Hlíðarhús árinu áður því þar stendur svo: „Hér að auki hefir sá erlegi dánumaður Ólafur Ólafsson gefið kirkjunni að Helgafelli á næstliðnu ári 1723 jörðina Hlíðarhús á Seltjarnarnesi 10 hndr. að dýrleika með hjáleigunni Ánanaustum.“ Eftir þessu hefðu þá heitingar átt að haldast við fram á næstliðna öld, og þess vegna segja aðrir – sem líklega hefir þótt það ótrúlega og hitt ekki síður að karlmenn skyldu hafa heitazt – svo frá að það hafi verið tvær kerlingar sem hafi búið sín hvorumegin við Reykjavíkurtjörn. En svo hafi staðið á að þær voru að skola hvor um sig úr sokkunum sínum sín hvorumegin tjarnarinnar, fóru svo að rífast út úr veiðinni í henni sem báðar vildu eiga og heituðust af öllu saman, og hafi þá farið eins og áður segir að fyrir álögum þeirra eða heitingum hafi silungurinn orðið að pöddum og hornsílum.