Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur fer úr Svartaskóla
Sæmundur fer úr Svartaskóla
Það gjörðist í utanferð Sæmundar að hann ferðaðist til Svartaskóla og hafi orðið forlibtur í skólanum og svo villtur af því sem fyrir hann bar að hann mundi ekki nafn sitt, og var hann kallaður í skólanum Búft.
Eina nótt er Sæmundur fróði var í hvílu sinni dreymir hann Boga Einarsson koma til sín svo mælandi: „Ill er athöfn þín Sæmundur; þú hefur gefið þig inn á þennan skóla, hefur gleymt guði þínum, yfirgefið sjálfan þig og glatað þínu skírnarnafni, og ef þú hugsar á eilífa velferð þína er þér ráð aftur að snúa.“ „Því fæ ég ei orkað,“ segir Sæmundur. „Það var eigi mikilmannlegt fyrir þig að ganga á þann skóla sem þú gazt ekki losað þig frá nær þú vildir, og finnast mun maður sá sem getur komið þér heim aftur ef þú vilt fara.“ „Eigi fæst ég mikið um það,“ segir Sæmundur; „því allir erum vér börn hjá Boga.“ „Þá skaltu mín ráð hafa. Þegar þú vilt út ganga, þá skaltu hafa lausa skikkjuna á herðum þér; gripið mun verða til þín nær þú út fer; þá skaltu láta skikkjuna lausa og svo muntu út komast. Meistara einn þarftu hér mest að óttast, þann er ræður skólanum; hann mun sakna þín. En þegar þú ert til ferðar kominn þá skaltu taka skóinn af hægra fæti þér og fylla hann með blóði og bera hann svo á höfðinu hinn fyrsta dag. En nær kvöld er komið mun meistarinn horfa til stjarnanna því hann er fróður í himintungla gangi, og er kvöld er komið mun hann grennslast eftir stjörnu þinni; þá mun hann þykjast sjá þig dauðan og myrtan með sverði, því blóðdrifinn bugur mun honum sýnast um stjörnu þína hvar af hann ræður bana þinn. Um daga mun hann ekki grennslast eftir ferðum þínum; þar skal ég fyrir sjá. Hinn annan daginn muntu aftur byrja reisu þína; þá skaltu fylla skó þinn með vatni og salti hvar af meistarinn mun ráða nær hann skyggnist að stjörnu þinni að þú sért sjódauður því sjávarhaf mun honum sýnast umflotið stjörnuna. Hinn þriðja daginn muntu enn byrja reisu þína; þá skaltu slá þér æð eða láta gjöra þar sem saman kemur hryggur og síða og í skó þinn blæða láta; síðan skaltu mold taka og saman við blóðið hræra og gott orð yfir mæla svo vígð sé moldin og bera hann svo á höfði þér hinn þriðja dag. En er meistarinn horfir eftir stjörnunni þá mun honum sýnast jarðarhnöttur umhverfis hana, hvar af hann ræður þig dáinn og greftraðan vera, og mun hann undrast yfir þessum atburði. En bak eftir sér hann að þú ert heill og lífs. Mun hann undrast viturleik þinn og þenkir sig sjálfan þér kennt hafa og mun hann þá árna þér allra heilla og ertu þá skilinn við þetta vandræði.“
Og með téðum atburði komst Sæmundur í burtu og til fósturjarðar sinnar.