Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sæmundur fer til gleði á nýjársnótt

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Sæmundur fer til gleði á nýjársnótt

Dóttir Sæmundar fróða er Margrét hét hafði í vikunni milli jóla og nýjárs verið að tala við vinnukonurnar og hefði þá óskað sér að hún væri komin á nýjárinu þangað sem mestur gleðskapur og skemmtun væri í heimi.

Á gamlárskvöld var Margrét að búa upp um föður sinn og er faðir hennar þar inni, og spyr hann hana þá að hvað hún hafi verið að tala við stúlkurnar upp á loftinu það kvöld sem hann til tók sem var það sama kvöld sem hún talaði við stúlkurnar. Hún segist ekki muna það. Hann minnir hana þá á að hún hafi verið að óska að vera komin þangað sem mest gleði væri. Hún játar því að hún hafi óskað sér þessa. Hann segir þá að hann skuli fara með hana þangað og skuli hún fara að búa sig því þau þurfi að fara dálítinn spöl frá bænum. Margrét fer að búa sig og þegar hún er ferðbúin þá segir Sæmundur við konu sína að Margrét og hann ætli að bregða sér í burtu, en fyrir messu skuli hann vera kominn á morgun.

Þau fara þá bæði ofan að sjó og kallar Sæmundur þá á kölska og segir honum þá hvað þeir hafi keypzt á um, og stendur þá strax grár hestur þar í fjörunni. Sæmundur sezt upp á hann og segir Margréti að setjast á bak við sig, en hvíslar að henni að hún megi ómögulega biðja fyrir sér. Sæmundur segir kölska að flytja sig þangað sem hann til tók og gjörir hann það, en þrisvar sinnum lætur kölski eftri hlutann síga ofan í sjóinn og ætlar að sökkva þeim, en þá slær Sæmundur hann með Davíðssaltaranum og þá heldur hann áfram að landi. Og þegar þar er komið stíga þau af gráa hestinum og ganga heim til borgar, og er þar mesta gleði og glaumur og skemmta þau sér alla nóttina. En þegar Sæmundur álítur tíma kominn til að fara þá kallar hann á Margréti og segir henni að koma, og fara þau. En þegar þau koma ofan að sjó stendur sá grái þar í fjörunni og fara þau á bak. Og þegar kölski er kominn miðja vega fer hann að taka dýfur og sökkva og slær þá Sæmundur hann með saltaranum. En í þriðja sinni setur hann allan eftri hlutann niður í sjó með mesta kasti, og þá fer Margrét að biðja fyrir sér, en þá segir Sæmundur: „Haltu þér saman Manga; hvað þarftu að vera hrædd, hann sem skrikaði á skötu,“ og slær þann gráa um leið heljarhögg með saltaranum. Síðan flytur hann þau að landi og er Sæmundur kominn að Odda fyrir messutíma og messaði hann um daginn.